Hjartað liggur vel varið í miðmæti, mediastinum, milli lungnanna í brjóstholinu, örlítið til vinstri. Um tveir þriðju hlutar þessa keilulaga líffæris liggja vinstra megin við miðlínu líkamans. Breiðari hluti hjartans er kallaður hjartabotn, basis cordis og hann snýr upp og liggur neðan við annað rifjapar. Hvassari endinn er kallaður hjartapunktur, apex cordis og hann vísar niður til vinstri og hvílir á þindinni. |