LOL 203, verkefni nemenda vorönn 1999 / til baka
Bygging hjartans.

    Hjartað starfar sem dæla, sem heldur blóðinu á hreyfingu. Það er holmyndað líffæri, með sterkbyggðum vöðvaveggjum og er stærð þess álíka og hnefi þess sem það er í.

Hjartað er umlukið gollurhúsi, en það er nokkurs konar poki sem skilur hjartað frá næstu líffærum og heldur því á sínum stað.

Hjartanu er skipt í tvo helminga sem starfa saman. Hvorum helmingi er svo skipt í tvö hólf, hvolf og gáttir. Efri hólfin, gáttirnar, eru þunnveggjaðar og taka þær við blóðinu, sem til hjartans streymir. Neðan gáttanna eru svo hvolfin með þykkum vöðvaveggjum. Milli gátta og hvolfa eru hjartalokur sem virka þannig að blóðið rennur hindrunarlaust niður í hvolf, en getur ekki komið til baka í gáttirnar.

Frá hvoru hvolfi fyrir sig liggur svo stór slagæð, sem flytur blóðið sem frá hjartanu kemur.

Hjartavöðvinn myndar veggi hjartahólfanna.

Hjartað hefur sitt eigið slagæða- og bláæðakerfi, kransæðakerfi, til að sjá fyrir þörfum sínum um efnivið og súrefni til endurnýjunar. Blóðstraumurinn í kransæðum er háður þrýstingnum í ósæðinni.

Blóðið sem til hjartans streymir frá öllum líffærum líkamans safnast að lokum saman í 2 bláæðum, efri og neðri holæðum. Blóð þeirra rennur í hægri gátt, þaðan niður í hægra hvolf sem spýtir því gegnum lungun. Þar losnar blóðið við koltvísýringinn og tekur til sín nýjar birgðir súrefnis. Frá lungunum rennur blóðið eftir lungnabláæðunum og í vinstri gátt. Gáttirnar taka við öllu því blóði sem streymir til hjartans og á milli hjartaslaga linast vöðvaveggirnir og hólfin fyllast blóði. Þegar hvolfin linast eftir hvert slag, flæðir blóðið frá gáttunum inn í þau, því næst dragast gáttirnar saman, tæmast og fylla hvolfin. Þegar samdrátturinn er það langt kominn að þrýstingur í hvolfi er orðinn meiri en í ósæð, opnast lokurnar og blóðið streymir út í slagæðakerfið. Svo linast vöðvaveggir hjartans og lokast þá lokurnar í ósæð aftur.

 

Upp síðuna. / LOL 203, verkefni nemenda vorönn 1999 / til baka

Bygging og starfsemi hjartans. Hjartasjúkdómar.
Höfundar: Fanney Ólafsdóttir, Freyja Fanndal.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 30. mars 1999.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/hjarta/hjarta3/bygg.htm