|
Helstu sjúkdómar í brisi, bráð brisbólga.
- Bráð brisbólga er ekki mjög algeng og ekki er alveg ljóst hvers vegna skyndilega
getur myndast bólga í þessum kirtli. Þó er talið að óhófleg áfengisdrykkja,
ofvirkni kalkkirtla, kviðarholsáverkar eða gallsteinar geti verið orsökin.
Einstaka sinnum er brisbólga fylgikvilli við hettusótt.
- Megineinkenni brisbólgu er ákaflega sár verkur í efri hluta kviðar.
Oftast byrja einkennin að gera vart við sig hálfum til einum sólarhring
eftir stóra máltíð eða ofneyslu áfengis. Verkurinn leiðir aftur í bak og í
brjóst og nær hann hámarki á nokkrum klukkustundum og fylgja þá oft uppköst.
Við alvarlegan sjúkdóm er sjúklingurinn mjög veikur og getur
jafnvel farið í lost, þá verður að leggja sjúklinginn inn á sjúkrahús strax.
|