Fjölbrautaskóli Suðurlands - Atli Arnarson - LOL 103 - Haust 2000

[HORMÓNAVEFURINN] [HEIMILDASKRÁ]

Listi yfir helstu hormón í mannslíkamanum


Listi þessi er upptalning á helstu hormónum mannslíkamans. Hverju hormóni fylgir stutt lýsing þar sem áhrifum þess er m.a. lýst og myndunarstaður tekinn fram. Í listanum eru nöfn hormóna á þremur tungumálum, íslensku, ensku og latínu og margar skammstafanir.


A B C D E F G H I J K L M N O P Q R S T U V Z X Þ Æ Ö

A
ACTH (Adrenocorticotropic hormone, stýrihormón nýrnahettubarkar) - kortikótrópín

Adrenalín:
Myndast í nýrnahettumergi. Adrenalín undirbýr líkamann fyrir átök (árás eða flótta) og seyti þess örvast við líkamlega eða andlega streitu. Adrenalín og noradrenalín vinna saman: adrenlín er losað til undirbúnings átaka en noradrenalín er losað meðan á átökum stendur. Helstu áhrif adrenalíns og noradrenalíns eru:
aukinn styrkur og tíðni hjartsláttar og þ.a.l. aukinn blóðþrýstingur, aukið blóðflæði til rákóttra vöðva, aukið blóðflæði til lifrar og heila, minnkað blóðflæði til húðar, aukning blóðsykurs, aukinn efnaskiptahraði, stækkun ljósopa í augum, gæsahúð, styttur storknunartími blóðs og aukið kortikósterón-seyti í kirtildingli.

Adrenocorticotropic hormone (ACTH) - kortikótrópín.

Adrenóglómerúlótrópín :
Stýrihormón sem myndast í heilaköngli og stjórnar e.t.v. seyti aldósteróns.

ADH (Antidiuretic hormone) - vasópressín.

Aktivín:
Nokkur prótein sem myndast í eggbúi. Þau örva virkni eggbústýrihormóns.

Aldósterón:
Aldósterón er einn barksteranna sem myndast í nýrnahettuberki. Hormónið stjórnar útskilnaði salta í nýrum, örvar upptöku natríums og útskilnað kalíums og viðheldur eðlilegum blóðþrýstingi. Angíótensín, kortikótrópín og hár styrkur kalíums í blóði örvar seyti aldósteróns.

 

Andrógen:
Samheiti yfir öll karlkynshormónin. Stjórna kynþroska, örva sáðfrumumyndun og karlleg kyneinkenni.

Andrósterón:
Eitt karlkynshormónanna (andrógenanna).

ANF (atrial-natriuretic factor) - natríumræsihormón.

Angíótensín:
Angíótensín er prótein úr 8 amínósýrum. Angíótensín 1 myndast í lifur fyrir tilstuðlan reníns en angíótensín 2 (angíótensín) verður til úr angíótensín 1 í lungum fyrir tilstuðlan peptíðasa sem nefnist angiotensin converting enzyme. Angíótensín örvar seyti aldósteróns úr nýrnahettuberki, eykur styrk hjartsláttar og örvar seyti vasópressíns úr kirtildingli. Þ.a.l. eykur angíótensín blóðþrýsting.

ANP (atrial-natriuretic peptide) - natríumræsihormón.

Antidiuretic hormone (ADH) - vasópressín.

Antimüllerian hormone:
Glýkóprótein sem þekjustoðfrumur sáðpíplna í eistum fósturs seyta. Það kemur í veg fyrir myndun eggrása og legs í karlfóstri.

Arginine vasopressin - vasópressín.

Atrial-natriuretic hormone (ANP) - natríumræsihormón.

Atriopeptin - natríumræsihormón.

Auriculin - natríumræsihormón.

Efst á síðu

B
Barksterar (Barkhormón):
Barksterar (mineralocorticoids) er samheiti yfir nokkur hormón sem framleidd eru í nýrnahettuberki og hafa áhrif á efnaskipti steinefna í líkamanum. Algengastur barksteranna er aldósterón.

BNP - Brain Natriuretic Peptide.

Brain Natriuretic Peptide (BNP):
Peptíð úr 32 amínósýrum sem myndast í sleglum hjartans. Fyrst uppgötvað í heilavef. Brain natriuretic peptide og natríumræsihormón (atrial natriuretic peptide) myndast bæði í hjarta og hafa sömu áhrif. Þau slaka á slagæðlingum, hamla seyti reníns og aldósteróns og hamla þ.a.l. endurupptöku natríums og vatns úr nýrnapíplum. Tilgangur hjartahormónanna tveggja er að minnka blóðþrýsting.

Efst á síðu

C

Calcitriol (Vitamin D3) - kalsitríól.

Calcitonin - kalsítónín.

CCK (cholecystokinin) - kólesýstókínín.

Cholecystokinin (CCK) - kólesýstókínín.

Corticotropin - kortikótrópín

Corticotropin-releasing hormone - kortikótrópín-leysihormón.

CRH (Corticotropin-realeasing hormone) - kortikótrópín-leysihormón.

Efst á síðu

D

Dópamín: Úrefni amínósýrunnar týrosíns sem framleitt er í undirstúku. Aðaltilgangur þess er að hamla seyti prólaktíns í kirtildingli.

Efst á síðu

E
Eggbústýrihormón:
Eitt hinna tveggja yfirkynhormóna sem framleidd eru í kirtildingli. Eggbústýrihormón er misleit tvennd (heterodimer) sem samanstendur af sömu alfakeðju og finnst í þýrótrópíni og gulbústýrihormóni auk betakeðju 115 amínósýra. Áhrif eggbústýrihormóns á karlkyn og kvenkyn eru ólík. Í kynþroska konum örvar það, ásamt gulbústýrihormóni, myndun estrogena í eggbúi og myndun eggfrumuvísa. Í kynþroska karlmönnum örvar það, með hjálp testósteróns, myndun sæðisfrumna í sæðisstofnfrumum. Eggbústýrihormón- leysihormón örvar seyti hormónsins úr kirtildingli.

Eggbústýrihormóns-leysihormón: Yfirstýrihormón sem myndast í undirstúku og örvar seyti eggbústýrihormóns í kirtildingli. Gónadótrópín-leysihormón.

Enterógastrón:
Myndað af þarmaslímu og losun þess örvast af fitu í þörmum. Hormónið stöðvar seyti gastríns því engin þörf er fyrir saltsýrumyndun eftir tæmingu magans.

Epinephrine - adrenalín.

EPO (erythropoietin) - eríþrópóíetín.

Eríþrópóíetín:
Eríþrópóíetín er glýkóprótein sem myndast í nýrum. Það örvar framleiðslu rauðra blóðkorna og losun þeirra úr beinmerg. Seyti eríþrópóíetíns örvast við blóðmissi eða hátt til fjalla (þar sem súrefni er af skornum skammti). Háfjallabúar hafa því óvenju mörg rauð blóðkorn.

Erythropoietin - eríþrópóíetín.

ESH - Eggbústýrihormón.

Estradíól:
Áhrifamest og algengast estrógenana.

Estrógen:
Samheiti yfir nokkur hormón sem örva kvenleg kyneinkenni (t.d. estradíól og estrón). Estrógen eru sterar og myndast í eggjastokkum hjá konum en örlítið magn þeirra myndast í nýrnahettuberki beggja kynja. Estrógen stjórna líkamsbreytingum á kynþroskaskeiði kvenna. Þau stuðla að vexti og þroska brjósta, legs og legganga á kynþroskaskeiði og viðhaldi þeirra síðar, valda einnig aukinni fitusöfnun, sérstaklega við mjaðmir og hárvexti kynhára og handarkrikahára. Estrógen eiga einnig þátt í stjórnun tíðahrings og taka þátt í þungun ef hún á sér stað. Þau eru andverkandi áhrifum parathormóns, halda losun kalks úr beinum í lágmarki og hjálpa þannig til við að halda beinum sterkum.

Estrón (oestrone, estrone):
Veikt estrógen sem hefur sömu áhrif og estradíól.

Efst á síðu

F

Fituhormón - leptín.

Follicle-stimulating hormone (FSH) - eggbústýrihormón.

Follitrópín - eggbústýrihormón.

FRF - eggbústýrihormóns-leysihormón.

FRH (FSH-realeasing hormone) - eggbústýrihormóns-leysihormón.

FSH (follicle stimulating hormone) - eggbústýrihormón.

FSH-RH (FSH-realeasing hormone) -eggbústýrihormóns-leysihormón.

Efst á síðu

G

Gastrín: Blanda nokkurra peptíða sem magaslíma í maga og þarmaslíma í skeifugörn seytir. Örvar saltsýrumyndun og pepsínmyndun í frumum magaveggjar u.þ.b. hálfri til einni klukkustund eftir að fæða kemur í maga.Sómatóstatín hamlar myndun gastríns.

GH (growth hormone, vaxtarhormón) - sómatótrópín.

GHRH (growth hormone-releasing hormone) - sómatókrínín.

GIF (growth hormone-inhibiting hormone) - sómatóstatín.

GIH (growth hormone-inhibiting hormone) - sómatóstatín.

Glucagon - glúkagon.

Glucocorticoids - glúkókortikóíð.

Glúkagon:
Fjölpeptíð úr 29 amínósýrum sem er myndað í alfa-frumum Langerhanseyja í briskirtlinum. Glúkagon hefur fyrst og fremst áhrif lifrina þar sem það örvar hana til að umbreyta glýkógeni í glúkósa sem síðan er losaður út í blóð. Þannig hefur glúkagon andstæð áhrif insúlíns. Hindrar myndun glýkógens og bruna sykurs og heldur þannig blóðsykurmagninu uppi. Seyting glúkagons örvast af lágu hlutfalli blóðsykurs og hátt hlutfall blóðsykurs hamlar myndun þess.

Glúkókortikóíð:
Flokkur hormóna sem framleidd eru í nýrnahettuberki og eru einnig nefnd sykursterar. Þau eru nauðsynleg fyrir starfsemi nýrna og vökvajafnvægi líkamans, halda uppi blóðþrýstingi og auðvelda líkamanum að standast álag. Einnig örva þau flutning amínósýra frá frumum til lifrar, stuðla að aukinni notkun prótína sem orkugjafa og hækka styrk blóðsykurs.Sykursterar hamla einnig losun histamíns og draga þannig úr ofnæmisviðbrögðum og koma í veg fyrir bólgur. Algengasti sykursterinn er kortisól (hýdrokortisón).

Gn-RH - gonadotropin-releasing hormone

Gonadotropin-releasing hormone (Gn-RH) - Gónadótrópín-leysihormón.

Gónadótrópín: Samheiti yfir yfirkynhormón, eggbústýrihormón og gulbústýrihormón.

Gónadótrópín-leysihormón:
Gn-RH er peptíð úr 10 amínósýrum sem myndað er í undirstúku. Örvar myndun eggbústýrihormóns (FSH) og gulbústýrihormóns (LH) og þ.a.l. eykur einnig styrk estrogens og prógesteróns hjá konum og testósteróns hjá körlum. Vanseyti Gn-RH getur stafað af mikilli líkamlegri þjálfun og lystarstoli (anorexia nervosa).

GRF - sómatókrínín.

GRH (growth hormone-releasing hormone) - sómatókrínin.

Growth hormone-releasing hormone (GHRH, GRH, GRF) - sómatókrínín.

GSH - Gulbústýrihormón.

Gulbústýrihormón (luteinizing hormone, LH):
Eitt hinna tveggja yfirkynhormóna (gonadotropin) sem framleidd eru í kirtildingli. Myndað í sömu frumum og mynda eggbústýrihormón. GnRH örvar seyti gulbústýrihormóns. Í kynþroska konum örvar gulbústýrihormón myndun estrógena í eggbúi á fyrri helmingi tíðahringsins. Kemur rýriskiptingu eggsins (meiosis 1) af stað og örvar egglos. Síðan örvar það tómt eggbúið til myndunar gulbús, sem seytir prógesteróni á seinni helming tíðahringsins. Í karlmönnum hefur gulbústýrihormón áhrif á millifrumur í eistum og örvar þar seyti karlkynshormónsins, testósteróns. Örvar einnig þroskun sáðfrumna.

Efst á síðu

H

HGH (human growth hormone) - sómatótrópín.

Histamín:
Hormón sem skemmdir vefir seyta. Þau valda mikilli víkkun og gegndræpi háræða þannig að prótín úr blóðvökva eiga greiða leið í vefina. Histamín seytast einnig við ofnæmisviðbrögð.

Hríðahormón - oxýtósín.

Hydrókortisón - kortisól.

Efst á síðu

I

ICSH (interstitial cell-stimulating hormone) - gulbústýrihormón.

IGF-1 (insulin-like growth factor-1) - sómatómedín C.

Inhibín:
Nokkur prótein sem myndast í eggbúi. Þau hamla virkni eggbústýrihormóns.

Insulin-like growth factor-1 (IGF-1) - sómatómedín C.

Insúlín:
Lítið prótein sem myndað er í betafrumum Langerhanseyja í briskirtlinum. Insúlín örvar lifrarfrumur og vöðvafrumur í sléttum vöðvum til að breyta glúkósa úr blóði í glýkógen. Einnig örvar insúlín vöðvafrumur sléttra vöðva til að taka amínósýrur úr blóði og breyta þeim í prótein. Þ.a.l. stuðlar insúlín að fitumyndun og lækkar blóðsykur. Mikill styrkur blóðsykurs örvar framleiðslu insúlíns en lítill styrkur blóðsykurs hamlar hinsvegar myndun þess.

Intermedín (litfrumustýrihormón) - melanótrópín.

Efst á síðu

K

Kalkhormón - parathormón.

Kalkkirtlahormón - parathormón.

Kalsitónín (þýrókalsítónín):
Kalsitónín er fjölpeptíð úr 32 amínósýrum sem myndað er í skjaldkirtli. Það minnkar kalsíumstyrk í blóði með því að örva bein til upptöku þess og örva útskilnað kalsíums í nýrum.

Kalsitríól:
Kalsitríól er virkt form D-vítamíns og er úrefni kalsiferóls (vitamin D3) sem verður til í húð við útfjólubláa geislun og úr forstigum "D-vítamíns" sem tekin eru upp úr fæðu í þörmum. Kalsiferól breytist í 25[OH] vitamin D3 í lifur sem síðan berst með blóði til nýrna þar sem parathormón stuðlar að myndun kalsitríóls. Kalsitríól örvar upptöku kalks úr fæðu í þörmum.

Kortisól (hýdrókortisón):
Steri sem framleiddur er í nýrnahettuberki. Hefur áhrif á efnaskipti sykurefna, fituefna og prótína, hamlar bólguviðbrögðum og bælir ónæmiskerfið. Hefur áhrif á allt hormónakerfið.

Kólesýstókínín:
Blanda nokkurra peptíða sem frumur í skeifugörn seyta. Seyti kólesýstókíníns örvast aðallega af fitu, kjöti og saltsýru úr maga í skeifugörn. Hormónið veldur samdrætti í gallblöðrunni og stuðlar þannig að losun galls í þarmana. Kólesýstókínín stuðlar einnig að losun meltingarensíma úr brisi í brisvökvann og á einhvern þátt í því að minnka matarlyst. Sómatóstatín hamlar myndun þess.

Kortikótrópín (stýrihormón nýrnahettubarkar):
Peptíð úr 39 amínósýrum sem myndað er í kirtildingli. Kortikótrópín örvar myndun sykurstera (glucocorticoids), barkstera (mineralocorticoids) og andrógena í nýrnahettuberki. Í fóstri stuðlar kortikóstrópín að myndun undanfara estrogens sem kallaður er dehydroepiandrosterone súlfat (DHEA-S) og hjálpar móður við undirbúning fæðingar. CRH (corticotropin-releasing hormone) frá undirstúku stjórnar seyti kortikótrópíns.

Kortikótrópín-leysihormón:
Peptíð úr 41 amínósýrum sem myndað er í undirstúku. Það örvar seyti kortikótrópíns (stýrihormóns nýrnahettubarkar) í kirtildingli. Kortikótrópín-leysihormón er einnig myndað af fylgjunni og virðist stjórna lengd meðgöngu.

Efst á síðu

L

Leptín (fituhormón):
Myndast í fitufrumum og sendir merki til undirstúku um minnkun fæðuneyslu (matarlystar). Leptín því á móti taugapeptíði Y. Magn leptíns í blóði er í hlutfalli við fitufrumur.

LH (luteinizing hormone) - gulbústýrihormón.

LH-RH - LRH.

Litfrumustýrihormón - melanótrópín.

LRF - LRH.

LRH (luteinizing hormone-releasing hormone): Stuðlar að myndun gulbústýrihormóns.

LTH (luteotropic hormone) - prolaktín.

Luteinizing hormone (LH) - gulbústýrihormón.

Lúteótrópín (luteotropin, luteotrophin) - prólaktín.

Efst á síðu

M

Mammotrópín (luteotrópín) - prólaktín.

Meðgönguhormón - prógesterón.

Melanótrópín (litfrumustýrihormón):
Hormón sem er myndað í miðhluta heiladinguls.
Örvar myndun dökka litarefnisins melaníns í húðfrumum manna. Það tempar einnig litaskipti í froskdýrum.

Melatónín:
Úrefni (afleiða) amínósýrunnar tryptófan sem myndað er í heilaköngli. Myndun og losun melatóníns stjórnast af dægursveiflum. Myrkur örvar framleiðslu þess en ljós hamlar framleiðslu þess. Samt sem áður er mestur styrkur melatóníns í blóði á fyrstu klukkustundum sólarhringsins óháð birtumagni. Talið er að melatónín eigi einhvern þátt í að tempra dægursveiflur í líkamsstarfseminni.

Mineralocorticoids - barksterar.

MSH (melanocyte-stimulating hormones (alfa- og beta-MSH)) - melanótrópín.

Efst á síðu

N

Natríumræsihormón (atrial natriuretic peptide):
Peptíð úr 28 amínósýrum sem myndast í gáttum hjartans. Hefur sömu áhrif og brain natriuretic peptide, þ.e. að slaka á slagæðlingum, hamla seyti reníns og aldósteróns og að hamla endurupptöku natríums og vatns úr nýrnapíplum.

NBHD (nýrilbarkarhvati dinguls) - kortikótrópín (stýrihormón nýrnahettubarkar).

Neuropeptide Y - taugapeptíð Y.

Noradrenalín:
Hormón sem nýrnahettumergurinn seytir við mikla andlega streitu.
Örvar hjartslátt og víkkar út æðar sem flytja blóð til rákóttra vöðva. Mikil líkamleg eða andleg streita örvar losun noradrenalíns. Losað meðan á átökum stendur en ekki til undirbúnings eins og adrenalín.

Norepinephrine - noradrenalín.

Nýrilbarkarhvati dinguls (NBHD) - kortikótrópín.

Efst á síðu

O
Orexin: Taugapeptíð sem talið er að auki matarlyst.

Oxytósín (hríðahormón, oxytocin):
Peptíð úr 9 amínósýrum sem myndast í taugadingli. Örvar samdráttarbylgjur (hríðir) í legi við barnsburð og örvar mjólkurstreymi úr mjólkurkirlum þegar barn byrjar að sjúga. Hefur áhrif á slétta vöðva í legi og brjóstum.O
xýtósín er oft gefið ófrískum mæðrum til að flýta fæðingu.

Efst á síðu

P

Pancreatic polypetide:
Fjölpeptíð úr 36 amínósýrum sem myndað er í gamma-frumum Langerhanseyja í briskirtlinum. Hlutverk þess er ekki þekkt.

Pankreózýmín (pancreozymin) - kólesýstókínín.

Parathormón (Kalkhormón):
Fjölpeptíð úr 84 amínósýrum sem framleitt er í kalkkirtlum. Kalkhormón vinnur á móti kalsitóníni með því að stuðla að losun kalsíumjóna úr beinum í blóð, örva endurupptöku kalsíums í nýrnapíplum og auka upptöku þess úr meltingarvegi með því að virkja kalsitríól.

Parathyroid hormone (PTH) - parathormón.

PIF - PIH.

PIH (prolactin-inhibiting hormone)

PRF - PRH.

PRH (prolactin-releasing hormone): Stuðlar að myndun prolaktíns.

PRL - prólaktín.

Prostaglandín:
Hormón sem myndast í sáðblöðrum. Þau berast með sæði upp í kynrás kvendýrs þar sem þau hvetja bylgjuhreyfingar sem nauðsynlegar eru fyrir flutning sáðfrumna. Lítill styrkur prostaglandína getur átt þátt í ófrjósemi karldýra. Þeir tempra einnig margvísleg störf, svo sem samdrátt sléttra vöðva, ónæmissvörun, virkni kynkerfis o.fl.

Prógesterón (meðgönguhormón):
Prógesterón er steri sem framleiddur er af eggjastokkum. Hann viðheldur m.a. þungun og örvar vöxt legslímu.

Prolactin-inhibiting hormone - prólaktóstatín.

Prólaktín (PRL, stýrihormón mjólkurkirtla, luteotropin):
Prótein úr 198 amínósýrum sem myndað er í kirtildingli. Á meðgöngu örvar það vöxt mjólkurkirtla í brjóstum og kemur af stað mjólkurmyndun í þeim eftir fæðingu. Viðheldur gulbúi hjá kvenkyns nagdýrum en ekki hjá öðrum spendýrum.TRH (thyrotropin-releasing hormone) frá undirstúku örvar losun prólaktíns. Estrógen og dópamín bæla prólaktín.

Prólaktóstatín (prolactin-inhibiting hormone):
Hefur hamlandi áhrif á myndun prólaktíns.

PTH - parathormón.

Efst á síðu

R

Rauðkornahormón - eríþrópóíetín.

Relaxín:
Fjölpeptíð sem myndast í legi meðan á meðgöngu stendur. Það losar um tengst beina í mjaðmagrind, slakar á liðböndum við mjaðmagrind og undirbýr þannig líkama kvenna fyrir fæðingu.

Renín:
Þegar blóðþrýstingur fellur byrja nýru að framleiða próteinkljúfinn renín. Renín hefur þau áhrif á blóðvökvapróteinið angíótensínógen í lifur að úr því klofnar angíótensín 1 (úr 10 amínósýrum). Í lungum breytist angíótensín 1 í angíótensín (2) (úr 8 amínósýrum) fyrir tilstuðlan ACE (angiotensin converting enzyme). Renín stuðlar að myndun angíótensíns og hækkar því blóðþrýsting.

Efst á síðu

S

Sekretín:
Fjölpeptíð úr 27 amínósýrum sem er myndað af frumum í þarmaslímu í skeifugörn þegar þær verða fyrir áreiti af völdum saltsýru úr maga. Sekretín örvar brisið til að losa basískt bíkarbónat út í brissafann sem síðan hlutleysir sýrustig þarmainnihaldsins.Sómatóstatín hamlar myndun þess.

Serótónín:
Kemur úr rifnum blóðflögum. Það veldur samdrætti æða og dregur úr blóðmissi. Það er einnig boðefni í miðtaugakerfi og hefur ennfremur áhrif á þarmahreyfingar. Myndað í rifnum blóðflögum, þarmaslímu og heila.

SHNB - stýrihormón nýrnahettubarkar.

SHSK - stýrihormón skjaldkirtils.

Sómatókrínín (GHRH, growth hormone-releasing hormone):
Blanda tveggja peptíða (eitt sem inniheldur 40 amínósýrur, en hitt 44) sem mynduð eru í undirstúku. Örvar myndun sómatótrópíns í kirtildingli.

Sómatólíberín - sómatókrínin.

Sómatómedín C (IGF-1, insulin-like growth factor-1):
Prótein úr 70 amínósýrum sem myndast í lifur. Sómatótrópín (vaxtarhormón) örvar myndun og seyti sómatómedíns
með því að bindast viðtökum á lifrarfrumum.Sómatómedín veldur vexti í löngum beinum.

Sómatóstatín:
Blanda tveggja peptíða (eitt úr 14 amínósýrum, hitt úr 28) sem mynduð eru af undirstúku, briskirtli (deltafrumum), magaslímu og þarmaslímu. Hefur hamlandi áhrif á myndun sómatótrópíns (GH), þýrótrópíns (TSH) í kirtildingli og glúkagoni í brisi. Minnkar upptöku næringarefna úr þarmainnihaldi með því að draga úr seyti gastríns, sekretíns og kólesýstókíníns.

Sómatótrópín (GH, vaxtarhormón): Prótein úr 191 amínósýru sem framleitt er í kirtildingli. Sómatókrínín (GHRH) frá undirstúku örvar seyti sómatótrópíns. Sómatótrópín veldur líkamsvexti með því að bindast nemum utan á lifrarfrumum sem byrja að framleiða sómatómedín (IGF-1). Sómatómedín veldur vexti í löngum beinum. Vanseyting sómatótrópíns í æsku leiðir af sér dvergvöxt en ofseyti veldur risavexti. Í fullorðnum leiðir ofseyti af sér æsavöxt (acromegalia).

SRIF (somatotropin release-inhibiting factor) - sómatóstatín.

STH - sómatótrópín.

Stýrihormón kynkirtla - gónadótrópín.

Stýrihormón mjólkurkirtla - prólaktín.

Stýrihormón nýrnahettubarkar - kortikótrópín.

Stýrihormón skjaldkirtils - þýrótrópín.

Sykursterar - glúkókortikóíð.

Efst á síðu

T

Taugapeptíð Y:
Prótein úr 36 amínósýrum sem framleitt er í þörmum og undirstúku. Stuðlar að matgræðgi og geymslu næringarefna sem fitu í fituvefjum.

Testósterón:
Steri sem myndast í eistum og örlítið magn myndast í nýrnahettuberki beggja kynja. Testósterón stjórnar líkamsbreytingum sem verða á kynþroskaskeiði karlmanna. Það örvar vöxt hára í handarkrikum hjá báðum kynjum og skegghára og kynhára hjá drengjum. Veldur því einnig að barkakýli stækkar og veldur því að röddin dýpkar, stýrir þroskun kynfæra og örvar kynhvöt. Örvar vöxt vöðva, stjórnar fitudreifingu og viðheldur frjómætti sáðfruma.

Thrombopoietin - þrombópóíetín.

Thymopoietin - þýmópóíetín.

Thyroid-stimulating hormone (TSH, stýrihormón skjaldkirtils) - þýrotrópín.

Thyroliberin (Thyrotropin-releasing hormone, TRH) - þýrolíberín.

Thyrotropin-releasing hormone (TRH) - þýrolíberín.

Thyroxine (T4) - þýroxín.

TPO - þrombópóíetín.

TRH (Thyrotropin-releasing hormone) - þýrolíberín.

Triiodothyronine (T3) - þríjoðóþýronín.

TSH (Thyroid-stimulating hormone, stýrihormón skjaldkirtils) - þýrotrópín.

Efst á síðu

V

Vasopressín (ADH, þvagtemprandi hormón): Peptíð úr 9 amínósýrum sem myndað er í kirtildingli. Örvar endurupptöku vatns í blóð úr nýrnapíplum og minnkar þannig þvagframleiðslu. Það herpir einnig saman slagæðlinga og hækkar þannig blóðþrýsting og er því oft kallað æðaþrýstihormón. Vanseyting eða erfðagallar geta leitt til hættulega mikillar þvagmyndunar, ástands sem kallað er flóðmiga (diabetes insipidus). Þvagframleiðsla hjá sjúklingum sem þjást af flóðmigu getur samsvarað allt að 30 lítrum á dag. Alkóhól hamlar framleiðslu vasópressíns.

Vaxtarhormón - sómatótrópín.

Efst á síðu

Þ

Þríjoðóþýronín (T3) :
Úrefni amínósýrunnar týrosíns sem myndast í skjaldkirtli. Þríjoðóþýronín er ólíkt þýroxíni að því leyti að það hefur aðeins þrjú joðatóm en þýroxín hefur fjögur.Yfirleitt er litið á þríjoðóþýronín og þýroxín sem eitt hormón, þýroxín. Þýroxín og þríjoðóþýronín örva öndunarefnaskipti, auka tíðni og styrk hjartsláttar og stuðla að eðlilegum vexti og þroska. Þýrotrópín (stýrihormón skjaldkirtils) örvar seyti þríjoðóþýroníns og þýroxíns.

Þrombópóíetín (thrombopoietin):
Prótein úr 332 amínósýrum sem myndast í lifur.Stuðlar að myndun blóðflögumæðra (megakaryocytes) í beinmerg. Blóðflögumæður framleiða blóðflögur sem veita blóðinu storknunareiginleika sína.

ÞTH (þvagtemprandi hormón) - vasópressín.

Þvagremmuhormón - vasópressín.

Þvagtemprandi hormón - vasópressín.

Þýmopóíetín (thymopoietin):
Fjölpeptíð myndað í þekjufrumum hóstarkirtils sem stjórnar umbreytingu eitilfruma (precursor lymphocytes) í hóstarkirtilfrumur (thymocytes).

Þýmosín (thymosin):
Nokkur efni sem stjórna starfsemi hóstarkirtils. Virkasta hormónið er fjölpeptíð sem nefnist alfa-þýmosín. Þýmosín myndast í þekjufrumum hóstarkirtils og viðheldur starfsemi og virkni ónæmiskerfis.

Þýrokalsitónín - kalsitónín.

Þýrolíberín (Thyrotropin-releasing hormone, TRH):
Þýrolíberín er trípeptíð (GluHisPro) sem myndað er í heiladingli.
Örvar myndun þýrótrópíns (TSH, stýrihormóns skjaldkirtils) og prólaktíns í kirtildingli.

Þýrotrópín (TSH, stýrihormón skjaldkirtils):
Glýkóprótein sem er myndað í kirtildingli. TRH (thyrotropin releasing hormone) frá undirstúku örvar myndun þýrótrópíns en sómatóstatín frá undirstúku hamlar myndun þess. Þýrótrópín örvar myndun skjaldkirtilshormónanna, þýroxíns (T4) og þríjoðóþýronín (T3).

Þýroxín (T4): Úrefni amínósýrunnar týrosíns sem myndað er í skjaldkirtli. Það örvar öndunarefnaskipti, eykur tíðni og styrk hjartsláttar og stuðlar að eðlilegum þroska og vexti. Þýrotrópín (stýrihormón skjaldkirtils) örvar seyti þýroxíns.

Æ

Æðaþrýstihormón (þvagtemprandi hormón) - vasopressín.

Efst á síðu


[HORMÓNAVEFURINN]

Fjölbrautaskóli Suðurlands - Atli Arnarson - LOL 103 - Haust 2000