Meltingarvefurinn

Niðurgangur, botnl.-bólga ogkviðslit:

6.  Niðurgangur, botnlangabólga og kviðslit.
   6.1. Niðurgangur stafar annað hvort af því að innihald magans fer svo hratt niður meltingarveginn, að ristillinn nær ekki að sjúga úr því safann, eða af sjúklegum breytingum í slímhúðinni. 
Niðurgangur vegna taugaáhrifa kemur af því að kvíði eða ótti örvar þarmahreyfingarnar, og af því leiðir ónot í maga og ákafa hægðaþörf.  Taugatruflanir geta líka valdið langvinnari niðurgangi.

   6.2. Botnlangabólga veldur venjulega seyðingsverk umhverfis naflann, vanlíðan og kulda hrolli.  Þessi einkenni fara vaxandi fyrsta sólarhringinn og verkirnir færast um leið neðar og utar í hægri síðu.  Sótthiti getur fylgt í kjölfarið en ekki ætíð.  Niðurgangur kemur endrum og eins í upphafi kasts, en þó er hægðartregða algengari.  Bólgan getur hjaðnað að sjálfu sér og kastið liðið hjá , en hætta er á að botnlanginn springi og valdi lífhimnubólgu.

   6.3. Kviðslit:  Ef lífhimnan þrengir sér út í rifu á kviðvöðvum myndast kviðgúll og útskot hið innra sem ýmis líffæri, oftast smáþarmar eða netja,geta runnið út í.  Í sumum tilvikum má ýta innihaldi haulsins inn í holið aftur .  Reyni maður mjög á kviðvöðvana eða hósti ákaft getur kviðslitið aukist.