[Frumulífræði]

2. Frumuhimna

Bygging: Frumuhimnan er tvöföld himna úr stórsameindum próteins og fosfólípíða, um það bil 7 nanómetrar að þykkt. Hjá einstaka frumugerðum myndar frumuhimnan frymisútskot sem nefnast örtotur í meltingarvegi, griplur og símar í taugafrumum og bifhár í þekjufrumum öndunarvegs.
Himnur sem eru utan um ýmis frumulíffæri í umfryminu eru sömu gerðar og frumuhimnan, saman nefnast þær frymishimnur.

Hlutverk: Frumuhimnan lykur um frumuna og hlutverk hennar er að tempra för efna inn og út úr frumunni. Talað er um að frumuhimnan sé valgegndræp, það er hún velur þau efni sem komast inn og út úr frumunni. Sum efnasambönd komast í gegnum himnuna með einföldu flæði eða osmósu, en önnur komast í gegn á virkan hátt með aðstoð sérvirks búnaðar í frumuhimnunni sjálfri. Slíkur flutningur krefst utanaðkomandi orku.


NÁT 103/Sigurlaug Kristmannsdóttir. Síðast uppfært í mars 2001