[Aðalsíða] / [Vist, kennsluáætlun 14.-15. viku]

Verkefni 10:   Vistfræði


  • Markmið:
     
    • Að nemendur afli sér  þekkingar um viðfangsefni tengd vistfræði og umhverfisfræði.
    • Að nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum við öflun upplýsinga og notkun þeirra við lausn flókinna viðfangsefna.
    • Að nemendur þjálfist í framsetningu upplýsinga.
    • Að nemendur læri að vinna með öðrum.

  • Verkefni:
    • Íbúar og yfirvöld þéttbýlissvæðis nokkurs, eiga við vanda að etja.  Lítið hefur verið hugað að umhverfismálum í bæjarfélaginu og nærliggjandi sveitum. Menn hafa treyst á að náttúruöflin feyki úrgangsefnum burt og haft að orði “að lengi taki sjórinn við”. 

    • Í héraðinu eru stóriðjur af ýmsum toga og litlar kröfur gerðar um mengunarvarnir.  Í sorp- og skólpmálum hefur viðkvæðið verið “að sé vandamálið úr augsýn þá sé það horfið”. 
      En menn búa ekki lengur í paradís..............
       
        1) Haust eitt fór að bera á fiskidauða og vansköpun skeldýra við strendur og auk þess mældust þrávirk lífræn efni í sel og sjófugli.

        2) Fyrr um sumarið hafði Jón svínabóndi á Hóli mokað mykjuhaugnum út í á og þá fór að bera á dauða vatnafiska.

        3) Sorp hrúgast upp, skipulögð úrgangslosunarsvæði eru orðin yfirfull og jarðvegsmengun er þó nokkur á nærliggjandi svæðum.
         

      Ykkar hlutverk er að reyna greina þessi viðfangsefni og koma með tillögur að lausnum ef einhverjar eru. Hverjar eru ráðleggingar ykkar til yfirvalda bæjarfélagsins?

  • Framkvæmd:

    • Vinnið í hópum 3-4 saman.
    • Hver hópur velur sér hópstjóra, sem skrifar niður nöfn og símanúmer allra í hópnum.  Hópstjórinn ber síðan ábyrgð á því að virkja alla einstaklinga hópsins jafnt og að verkefnið verði tilbúið í tæka tíð.
    • Búið til lista yfir það sem þið vitið um viðfangsefnið.  Þessar upplýsingar eru geymdar undir fyrirsögninni: "Hvað vitum við?
    • Skráið einnig niður hvaða upplýsingar þið þurfið til að leysa verkefnið og geymið þær undir fyrirsögninni:  "Hvað þurfum við að vita?
    • Skiptið með ykkur verkum og ákveðið hver næstu skrefin verða í vinnunni. Undir fyrirsögninni "Hvað eigum við að gera?" búið til lista yfir hvað beri að framkvæma (t.d. að spyrja sérfræðing, fara á bókasafnið, lesa kennslubókina, leita á netinu).
    • Hópurinn hittist í hverri kennslustund og hver einstaklingur miðlar til hinna því sem hann hefur orðið áskynja.
    • Skrifið skýrslu um viðfangsefnið.  Sú skýrsla á að  innihalda lýsingu á vandamálinu, spurningarnar (Hvað vitum við/þurfum við að vita/eigum við að gera), greiningu á viðfangsefnunum, ráðleggingar til bæjaryfirvalda og  röksemdir fyrir þeim.  Skýrslan á að vera unnin í tölvu.  Heimildaskrá þarf að fylgja með skýrslu. Mikilvægt er að styðjast við sem flestar heimildir í skýrslunni og geta heimilda í texta. Vandið gerð heimildaskrár.
    • Í síðasta tíma fer fram kynning á úrslausnum og þeim gögnum sem styðja þær.

  • Einkunn verður gefin fyrir:
    • mætingu í kennslustundir og virkni einstaklinga (20%),
    • skýrslu (60%),
    • heimildaskrá (10%),
    • kynningu (10%).

  • Skil:  Skýrslunni á að skila í síðustu kennslustund 15. viku.


FÁ/Kennarar í NÁT 103 unnið í samstarfi við Þórunni Óskarsdóttur, sjá: pbl.is/nóvember 2002