Verkefni 10 – Vist-og umhverfisfræði

 

 

Markmið:

 

  • Að nemendur afli sér þekkingar um viðfangsefni tengd vist-og umhverfisfræði.
  • Að nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum við öflun upplýsinga og notkun þeirra við  lausn flókinna viðfangsefna.
  • Að nemendur þjálfist í framsetningu upplýsinga.
  • Að nemendur læri að vinna með öðrum.

 

 

Verkefnið:

 

Eftirfarandi fyrirsögn kom fyrir í dagblaði hér á landi fyrir skömmu síðan:

 

“Kæfir mannkynið sig í mengun”

 

Það er nú svo komið að við, mannkynið í dag, njótum þess vafasama heiðurs að láta frá okkur mesta úrgang sem þekkst hefur. Samfara þróun iðnaðarþjóðfélagsins breyttust bæði vörur og framleiðsla. Sem dæmi, þá er áætlað  að við notum milli 10–20 þúsund mismunandi efni til að framleiða yfir 70 þúsund efnasambönd. Úff!!

 

Úrgangur er eitt þeirra vandamála sem við verðum að leysa. Staðreyndin er því miður sú að ýmis umhverfisvandamál eru afleiðingar uppsöfnunar úrgangs (mengunar).

Dæmi um þessi vandamál eru: Aukning gróðurhúsaáhrifa, eyðing ósónlagsins, súrt regn, uppsöfnun þrávirkra lífrænna efna, þungmálma, skólps og sorps.

 

Umhverfisráðherra er að fara á alheimsráðstefnu um hvernig þjóðir heims eigi að bregðast við þessum vandamálum.  Þið eruð sérfræðingar í umhverfismálum og ykkar hlutverk er að semja greinargerð til að útskýra eðli þessara vandamála fyrir ráðherra og koma með tillögur til úrbóta.

Framkvæmd:

  • Vinnið í hópum  3-4 saman.
  • Hver hópur velur sér hópstjóra, sem skrifar niður nöfn og símanúmer allra í hópnum.  Hópstjórinn ber síðan ábyrgð á því að virkja alla einstaklinga hópsins jafnt og að verkefnið verði tilbúið í tæka tíð.
    • Búið til lista yfir það sem þið vitið um viðfangsefnið.  Þessar upplýsingar eru geymdar undir fyrirsögninni: "Hvað vitum við?" 
    • Skráið einnig niður hvaða upplýsingar þið þurfið til að leysa verkefnið og geymið þær undir fyrirsögninni:  "Hvað þurfum við að vita?" 
    • Skiptið með ykkur verkum og ákveðið hver næstu skrefin verða í vinnunni. Undir fyrirsögninni "Hvað eigum við að gera?" búið til lista yfir hvað beri að framkvæma (t.d. að spyrja sérfræðing, fara á bókasafnið, lesa kennslubókina, leita á netinu).
  • Hópurinn hittist í hverri kennslustund og hver einstaklingur miðlar til hinna því sem hann hefur orðið áskynja.  Bætið upplýsingum við "Hvað vitum við?", "Hvað þurfum við að vita?" og "Hvað eigum við að gera?"
  • Skrifið skýrslu um viðfangsefnið.  Sú skýrsla á að  innihalda lýsingu á vandamálinu, spurningarnar (Hvað vitum við/þurfum við að vita/eigum við að gera), greiningu á viðfangsefnunum, ráðleggingar til ráðherra og  röksemdir fyrir þeim.  Skýrslan á að vera unnin í tölvu.  Heimildaskrá þarf að fylgja með skýrslu.
  • Skýrslu á að skila 29. apríl 2002.
  • Í síðasta tíma verður málstofa þar sem niðurstöður ykkar verða ræddar.

Einkunn:

Einkunn verður gefin fyrir:

    • Mætingu í kennslustundir (10%),
    • skýrslu (70%),
    • nemendamat (20%).

Fjölbrautaskólinn við Ármúla - María Björg Kristjánsdóttir og Sigurlaug Kristmannsdóttir unnið í samstarfi við Þórunni Óskarsdóttur, sjá: pbl.is/apríl 2002