Til baka 
 
 
Kísill - Si

 

Sætistala: 14
Atómmassi: 28,086
Eðlissmassi kísils: 2,33g/ml
Bræðslumark: 1410 °C

Bygging atómsins: Kísill er í lotukerfinu í fjórða aðalflokki og í þriðju lotu. Þar af leiðandi hefur kísill fjórar rafeindir á ysta hvolfi og þrjú aðalhvolf.

Kísill er málmleysingi, harður, dökkgrár og fjórgiltur í efnasamböndum.

Kísill er um 25,7% af massa jarðskorpunnar og er hann næstalgengasta frumefni á eftir súrefni. Kísill kemur ekki fyrir óbundinn í náttúrunni heldur bundinn í síliköt.

Náttúran skiptist að miklu leyti í tvö ríki, annars vegar hið lífræna ríki, sem byggir á kolefni (C) og hins vegar hið fasta grjótkennda ríki, sem byggir á kísil(Si).

Í náttúrunni finnst kísill aðeins í efnasamböndum, aðallega með súrefni. Hreinan kísil er hægt að einangra úr slíkum náttúrulegum efnasamböndum og er hann glansandi að sjá, líkt og málmur og hefur hann sérstaka rafleiðnieiginleika.

Kísill er mikilvægur þáttur í íslenskri stóriðju. Á hverju ári eru yfir 100.000 tonn af kísiljárni til stálframleiðslu flutt út frá Járnblendiverksmiðjunni á Grundatanga og um 25.000 tonn af kísligúr eru framleidd í kísilverksmiðjunni við Mývatn.

Ummyndun bergs á lághitasvæðum er yfirleitt frekar lítil en þó fellur kísill oft út og myndar hverahrúður.

Inn í langflestum tölvukubbum og öðrum örrásum eru þunnar kísilflögur sem sagaðar eru úr feiknastórum og ofurhreinum kísilkristöllum. Kísill er hálfleiðari.

Kísill hefur oft verið kallað gleymda næringarefnið. Kísill er eitt algengasta steinefnið á yfirborði jarðar og það er jafnframt mikilvægt næringarefni fyrir heilbrigt fólk. Það er eitt af nauðsynlegum næringarefnum til vaxtar og viðahalds lifandi vera. Kísill örvar efnaskipti og myndun fruma. Kísill örvar ónæmiskerfið til að hjálpa líkamanum við að berjast við sjúkdómsvaldandi boðflennur.

Einkenni kísilskorts hjá fólki er talin vera lélegt minni, hármissir og lélegur vöxtur nagla. Kísilmagn í líkamanum minnkar eftir því sem við eldumst og því er talið að eldra fólk hafi meiri þörf fyrir hann.

Bláa lónið er einstök heilsulind sem hefur mikið magn af náttúrulegum steinefnum, kísil og sérstökum blágrænþörungi. Fyrir tilviljun uppgötvaðist að böðun í lóninu hefði jákvæð áhrif á húðsjúkdóminn psoriasis. Í kjölfarið var hafist handa við að rannsaka lækningamátt lónsins. Kísillinn á að styrkja, hreinsa og mýkja húðina. Hann hjálpar til við endurnýjun ysta lags húðarinnar, hefur áhrif á fitujafnvægið í húðinni og hefur sótthreinsandi eiginleika.

Silíkonhlaupið sem notað er í brjóstfyllingar, er unnið úr kísil, einu algengasta efni jarðskorpunnar. Kísill er í formi kristalla sem mynda m.a. venjulegan sand. Silíkon finnst hins vegar ekki í náttúrunni en með því að tengja lífræn efni við kísil verður til hlaup eða olía sem notuð er nú.

Höfundur: Elmar Freyr Kristjánsson, Nát 123

 

Fjölbrautaskólinn við Ármúla, október 2002/SK