Til baka 
 

 

Gull - Au


Sætistala: 79
Atómmassi: 196,96655 u


Gullstangir

Hreinleiki gulls er mældur í karötum og er eitt karat 1/24 eða 4,1667 prósent. Hreint gull er því 24 karöt. Hreint gull er of mjúkt til að hægt sé að smíða úr því og þess vegna er gullinu blandað saman við önnur efni t.d. kopar þegar smíða á úr því skartgripi og eru gull skartgripir oftast um 14-18 karöt. Gullblanda sem inniheldur 16 hluta gulls og 8 hluta af öðrum málmi, til dæmis kopar, er 16 karöt.

Þessi háttur á að mæla hreinleika gulls á rætur sínar að rekja til miðalda. Á 11. öld var orðið mark notað fyrir mælieiningu fyrir þyngd í Þýskalandi, einkum þegar vega þurfti gull og silfur. Orðið mark var síðan notað um myntina en orðið karat var notað sem þyngdareining; Eitt mark vó 24 karöt.

Í dag er karat ekki þyngdareining heldur hlutfallseining um hreinleika gulls.

Gull leiðir hita og rafmagn vel og tærist ekki auðveldlega. Ekki fellur á það í andrúmslofti eins og til dæmis silfur eða kopar. Þess vegna er gull oft notað í leiðara eða sem hlífðarefni utan á gervitunglum. Hér áður notuðu tannlæknar gullið til að fylla upp í holur en nú eru notuð önnur efni í þeim tilgangi.

Í dag kemur mestur hluti gullsins frá Suður-Afríku, Rússlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu. Um það bil 45% af því gulli sem til er í heiminum í dag er í eigu ríkja og seðlabanka.

Almennt kaupverð á gulli í dag er um 69.600 kr. hver únsa eða 950.000 hvert kíló.

Heimild:

Encyclopaedia Britannica

Höfundur: Magnús Sigurðsson, Nát123


Fjölbrautaskólinn við Ármúla, mars 2003/Sigurlaug Kristmannsdóttir