Til baka á: Fyrirlestrar


Áhrif upplýsingatækni á fagmennsku kennarans
 

Eftir Sigurlaug Kristmannsdóttur 

Erindi haldið á skólamálaþingi Kennarasamband Íslands í Reykjavík september 2001

 

Kennarastarfið er flókið og margbreytilegt starf. Það gerir miklar kröfur til þess sem því sinnir. Sumir hafa talið kennslu til listgreina. Í dagsins önn gefst kennurum lítill tími til að velta fyrir sér hugtökum eins og fagmennska. Við einfaldlega kennum og reynum að sinna störfum okkar eins vel og kostur er. En öllum er okkur hollt að staldra við og huga að því sem við erum að gera og þess vegna fagna ég þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um fagmennsku kennarans. Ég ætla að reyna að bæta hér einhverju við og beina sjónunum sérstaklega að áhrifum upplýsingatækni á fagmennsku kennarans. Því hefur verið haldið fram að þessi nýja tækni muni breyta öllu skólastarfi, námsefninu, námsferlinu, kennsluaðferðunum og þar með muni hún hafa áhrif á fagmennsku kennarans. Í þessu stutta erindi mun ég fyrst fjalla almennt um þætti sem einkenna kennara sem fagmann og reyna síðan að bæta við með hvaða hætti ég tel að upplýsingatæknin hafi áhrif á fagmennskuna.

Hvað er það sem einkennir góðan kennara? Jú hann þarf að kunna sitt fag út í æsar um það verður ekki deilt, hann þarf að geta miðlað þekkingu sinni til nemenda sem hafa mismunandi bakgrunn og mismunandi afstöðu til fagsins. Kennarinn þarf að geta sett þekkingu sína þannig fram að nemendur geti náð tökum á henni og tileinkað sér hana. Kennarinn þarf að geta sett markmið með kennslu sinni og síðan þarf hann að finna leiðir til að nemendurnir eigi möguleika á að ná þessum markmiðum. Ekki má gleyma því að kennarinn þarf síðan að meta frammistöðu nemenda sinna. Síðast en ekki síst þarf kennarinn að geta kveikt neista hjá nemendum sínum, þannig að þá þyrsti í að læra það sem hann hefur fram að færa.

Í stuttu máli: Kennarinn þarf að kunna sitt fag, hann þarf að geta miðlað því og vakið áhuga nemenda sinna.

1.  Fyrsta atriðið: Faleg þekking kennarans er numin, í skólum og með sjálfsnámi kennarans.

2.  Næsta atriðið: Miðlun þekkingarinnar. Hægt er að læra viss atriði sem auðvelda miðlun þekkingar, eins og til dæmis að beita röddinni rétt, að skrifa skýrt og skilmerkilega, að útbúa glærur og námsefni En hvernig kennaranum tekst til við miðlunina fer að hluta til eftir upplagi hans sjálfs, það er eins og kennarinn virki persónuleika sinn til miðlunarinnar og það er þess vegna sem líkja má kennarastarfinu við listgrein. Við höfum hvert okkar stíl ef svo má að orði komast og við verðum að fá að þróa okkar persónulega stíl. Við verðum sjálf að fá að ráða hvaða aðferðum við teljum best að beita við miðlunina. Við erum sérfræðingar í að meta aðstæður, að vita hvaða aðferðir henta best í hvaða tilfelli sem er.

Já við miðlum þekkingu og við setjum markmið með því sem við gerum. Við vitum hvaða leiðir eru færar til að ná markmiðunum, allt eftir því hvernig nemendahópur okkar er saman settur, hvaða verkefni henta og hvenær við þurfum að miðla til nemandans og hvenær við eigum að draga okkur í hlé til að nemandinn fái næði til að vinna. Við getum lesið úr merkjum sem koma frá nemandanum og hópnum öllum og brugðist við þessum merkjum, áður en þau verða að vandamálum.

Til að miðla þekkingu þarf kennarinn að hafa sýn á aðalatriði fagsins og eftir því sem sýn hans er skarpari, þeim mun betur getur hann útskýrt fyrir nemendum og einfaldað flókna hluti án þess að brengla þá.

3. Þriðja og síðasta atriðið sem ég nefndi er að kennarinn þarf að geta vakið áhuga nemandans, hann þarf að geta kveikt einhvern neista í brjósti hans, þannig að hann langi til að læra. Og þessi neisti þarf helst að verða að báli, svo að nemandinn geti jafnvel hugsað sér að halda áfram að læra þegar hann kemur út úr kennslustofunni. Þetta er samkvæmt mínu viti aðalgaldurinn við kennsluna. Óhætt er að fullyrða að áhugi kennarans á viðfangsefninu smitist til nemendanna.

En með hvaða hætti getur upplýsingatækni haft áhrif á þessi atriði, víkjum aðeins að því:

1. Kennarinn þarf að kunna sitt fag út í æsar sagði ég áðan, en þar sem ég er menntuð í raunvísindum, þá er þetta auðvitað of djúpt í árina tekið. Í raunvísindum er ekkert til sem heitir að kunna fag sitt út í æsar, þó ekki væri nema vegna þess að stöðugt er að bætast við heim raunvísindanna ný þekkingaratriði og ýmislegt sem var í gildi fyrir örfáum árum síðan hefur þegar verið endurskoðað. Kennari þarf því stöðugt að bæta við þekkingu sína til að geta talist vera fær í sínu fagi. Við öflum okkur nýrrar þekkingar í bókum og tímaritum, á námskeiðum og í samtölum við aðra og nú getum við í vaxandi mæli nýtt okkur veraldarvefinn eða internetið og aflað okkur þekkingar þar. Stöðugt er að bætast á netið nýtt efni sem okkur er tiltækt, ef við aðeins kunnum að leita það uppi. Til að viðhalda fagþekkingunni þurfum við tækifæri til símenntunar.

2. Þegar kemur að miðlun þekkingarinnar, þá nýtist upplýsingatæknin vel, hægt er að útbúa námsefni á aðgengilegan hátt í tölvum, setja upp glærur til notkunar í kennslustundum, eða gera vefsíður og setja þær út á netið þannig að nemandinn geti sjálfur nýtt sér námsefnið.

Upplýsingatæknin nýtist nemendum einnig til námsins. Í heimi þar sem magn þekkingar margfaldast á mun skemmri tíma en áður hefur þekkst, þarf að kenna nemendum að afla sér upplýsinga og að velja úr öllum þeim upplýsingum sem á hann dynja, að meta þessar upplýsingar og tileinka sér þær, og síðan að setja þær fram þannig að þær verði öðrum að gagni.

Kennarinn er ekki lengur brunnur allra þeirra upplýsinga sem nemandinn þarf á að halda. Kennarinn þarf ekki lengur að kunna allt sem vert er að kunna í fræðigreininni, þetta losar kennarann við það hlutverk að þylja fræðin frammi fyrir bekknum, fræðin eru í bókum og í vaxandi mæli á netinu, kennarans er að kenna nemandanum að nálgast þessi fræði.

Upplýsingatæknin gefur kost á að flytja áherslupunktinn frá miðlun kennarans yfir á sjálfstæða þekkingarleit nemandans. Um leið og áherslupunkturinn flyst frá kennaranum yfir á aðrar upplýsingaveitur, þá flyst ábyrgðin á náminu að hluta til af herðum kennarans yfir á nemandann sjálfan. Nemandinn er ábyrgur fyrir eigin námi, en kennarinn setur markmiðin og útbýr verkefni sem þannig eru úr garði gerð að við úrvinnnslu þeirra á nemandinn möguleika á að ná settum markmiðum.

Kennarinn er skipuleggjandinn og aðstoðarmaðurinn, hann hvetur nemendur til dáða, leiðbeinir þeim í upplýsingaleitinni en leysir ekki verkefnin fyrir þá. Kennarans er að virkja hvern nemanda eftir getu hans og áhuga.

En hvernig nemendur sé ég koma út úr slíku námsferli? Jú, nemendur sem kunna að afla sér þekkingar, nemendur sem kunna að vinna úr þessum upplýsingum og nemendur sem kunna að setja þær fram. Nemendur sem eru sjálfir ábyrgir fyrir námi sínu. Nemendur sem virkja sjálfsaga sinn til námsins. Nemendur sem kunna að vinna með öðrum að úrlausn verkefna. Ég vil sjá nemendur mína á kafi í vinnu, svo upptekna að þeir taka ekki eftir því þegar kennslustundin er liðin, nemendur sem sökkva sér í vinnu af ánægju og finna fyrir þeirri gleði sem felst í því að ná tökum á efninu og skila af sér vönduðum verkefnum. Nemendur sem eru að afla sér þekkingar fyrir lífið og um leið að læra að beita þeim vinnubrögðum til sjálfsnáms sem þeir síðar meir geta notað hvar sem þá ber niður í þjóðfélaginu. Þetta er kjarni hinnar nýju námsaðferðar.

Og hvaða kröfur gerir þetta nýja vinnulag til fagmennsku kennarans? Kennarinn þarf ekki aðeins að kunna sitt fag, hann þarf einnig að hafa á valdi sínu þó nokkra kunnáttu á tölvum og beitingu upplýsingatækni. Hann þarf að geta leiðbeint nemendum um öflun upplýsinga, hann þarf að kunna á hin ýmsu forrit sem nýtast eiga nemandanum til úrvinnslu og framsetningu upplýsinga. Kennarinn er ekki aðeins fagkennari, heldur er hann einnig tölvukennari.

Til að geta sinnt því starfi þarf kennarinn að hafa aðgang að tölvubúnaði og hann þarf stöðugt að bæta við kunnáttu sína í notkun þess búnaðar.

3.  Hvernig nýtist upplýsingatæknin til að vekja áhuga nemenda? Tölvur eru ennþá áhugavekjandi í sjálfu sér, trúlega vegna þess hversu nýjar þær eru í skólastarfi. Nemendum finnst gaman að vinna með efni á tölvutæku formi og nemendum finnst gaman að útbúa efni með tölvum. Allir vilja auka færni sína í tölvuheimum. Ef efni nemenda á að birtast á vefnum þá vanda þeir sig betur en ella, því eins og einn nemandi minn orðaði það: “Við verðum að gera þetta betur, því þetta fer í alheimsbirtingu.”

Upplýsingatæknin getur ef rétt er á haldið breytt námsferlinu og kennsluaðferðunum og þar með getur hún haft áhrif á fagmennsku kennarans. En viljum við gera breytingar á skólkerfinu? Hvaða breytingar viljum við gera? Hvernig nemendum viljum við skila úr skólakerfinu? Hvaða hugsjónir höfum við varðandi menntakerfið okkar? Spyrjum þessara spurninga fyrst og látum síðan hina nýju tækni hjálpa okkur við að framkvæma þær breytingar sem við viljum gera. Tölvur eru tæki sem nýst geta kennaranum í starfi og hann getur látið þær þjóna markmiðum skólastarfsins. Ég veit að ýmsir kennarar hafa áhyggjur af því að tölvurnar muni stjórna um of skólastarfinu, að skólastarfið fari um of að snúast um tölvur og að markmið hefðbundins náms muni víkja til hliðar. Af þessu hef ég ekki áhyggjur því ég treysti fullkomlega kennurum sem fagmönnum til að sjá til þess að tölvurnar þjóni markmiðum skólastarfsins.

Hvernig þessi nýja tækni getur þjónað markmiðum skólastarfsins er okkar kennaranna að finna út og það er einmitt þess vegna sem það er svo spennandi að vera kennari núna í dögun nýrrar aldar. Þessi nýja tækni er komin til að vera og hún mun hafa áhrif á líf okkar, því er það okkar kennaranna að vera í fararbroddi, vísa nemendum veginn, kenna þeim að nýta þessa tækni til náms. Okkar er að þróa upplýsingatækni til öflunar og miðlunar þekkingar. Þar mun reyna á fagmennsku okkar kennaranna til hins ítrasta.

 

Sigurlaug Kristmannsdóttir

Framhaldsskólakennari

Fjölbrautaskólanum við Ármúla