Til baka 
 
 
Argon - Ar

 

Sætistala: 18
Atómmassi: 39,9 u

Argon er algengasta eðallofttegundin, og er 0.934% af andrúmsloftinu.

Henry Cavendish komst á slóð eðallofttegundanna árið 1785. Hann var að gera tilraunir með loft þegar hann tók eftir lítilli loftbólu, "aðeins 1/120 hluti af öllu loftinu", sem vildi ekki taka þátt í efnabreytingunni. Öld leið áður en menn gerðu sér grein fyrir mikilvægi þessarar athugunar.

Árið 1894 fundu tveir Englendingar, J. W. S. Rayleigh og William Ramsey, sömu dularfullu lofttegund og greindu hana í litrófsskjá, en lofttegundir má þekkja í litrófsskjá á litarlínum sem koma fram þegar rafstraumi er hleypt í gegnum þær.
Þessi lofttegund, sem virtist ekki hafa neina efnafræðilega eiginleika, sýndi rauðar og grænar línur, sem aldrei höfðu sést í litrófi áður.
Rayleigh og Ramsey gáfu henni nafnið Argon, sem er gríska og þýðir óvirkur.

Argon er einkum notað við logsuðu, þar sem það kemur með óvirkri návist sinni í veg fyrir að suðumálmar brenni.
Einnig er Argon notað í venjulegar ljósaperur. Þær eru fylltar með Argoni til að koma í veg fyrir að glóðarþráðurinn brenni. Ef reynt væri að nota súrefni eða andrúmsloft í staðin myndi peran springa þegar kveikt væri á henni vegna þess að heitur glóðarþráðurinn myndi hvarfast við súrefnið.

Sem vökvi hefur Argon marga sérkennilega en gagnlega eiginleika. Fljótandi Argon gengur ekki í samband við önnur efni, og er svo eftirsótt til notkunnar við að breyta stangajárni í stál og til að skjóta eldflaugum út í geiminn, að framleiðsla þess nemur einni lest á sekúndu.

Heimildir:

Efnið. Ralph E. Lapp. Almenna bókafélagið. 1968.
Efni og orka. R. Kerrod og N. Ardley. Örn og örlygur. 1986.


Höfundur: Dagbjört Njarðardóttir, Nát 123

Fjölbrautaskólinn við Ármúla, febrúar 2003/Sigurlaug Kristmannsdóttir