Til baka 
 
Joð - I

Sætistala: 53

Atómmassi: 126,9045 u

Eðlismassi: 4,94 g/cm3

Bræðslumark joðs: 113,7°C (386,85 K)

Suðumark joðs: 184,4°C (457,4 K)

Bygging atómsins:

Róteindir eru 53, nifteindir eru 74 og rafeindir eru 53. Þegar atóm joðs verður að jónefni verða rafeindirnar 54. 30 ísótópar (samsætur) joðs eru þekktir en aðeins einn er nógu stöðugur til að finnast hreinn í náttúrunni en það er 127I.

Hvernig nafn joðs er tilkomið:

Joð var uppgötvað af Bernard Courtois árið 1811 í París í Frakklandi og er nafnið Iodine komið frá Gríska orðinu iodes sem þýðir fjólublár vegna sterks litar sem joð getur gefið frá sér.

Eiginleikar joðs:

Joð (Iodine) er halógenefni (málmleysingi) með sætistöluna 53 í lotukerfinu og situr þar í 7. flokk, 5. lotu.

Joð er blá-svart, glansandi fast efni við stofuhita sem gufar auðveldlega upp og myndar fjólublátt, ertandi og sterkt lyktandi gas og þarf því geymslu með tilliti til þess.

Hvar joð er að finna í náttúrunni:

Joð fyrirfinnst aðallega í hafi og í nálægð við hafið. Þörungar eru mjög joðríkir sem og fiskur og mörg önnur sjávardýr. Einnig er joð að finna í chílenskum saltpétri og nítrat-myndandi jarðvegi.

Hvernig joð er notað:

Fyrir mannslíkamann er joð nauðsynlegt, ólífrænt næringarefni. Í líkamanum eru um 20-50 mg af joði og er það aðallega að finna í skjaldkirtlinum þar sem joð er hluti skjaldkirtilshormóna sem stjórna m.a. orkunýtingu líkamans (þ.e. hormónið týroxin). Joðskortur getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir mannskepnuna þar sem ástand getur skapast sem kallast strúma (skjaldkirtilsstækkun). Á svokölluðum strúmasvæðum getur alvarlegur joðskortur valdið spiklopa (myxoedema), bjúgmyndun og þunglyndi hjá fullorðnum og kretínisma hjá börnum sem lýsir sér í andlegum og líkamlegum vanþroska.

Fram til þessa hefur joðneysla Íslendinga verið með mesta móti í heiminum enda er fiskur sá matvælaflokkur sem inniheldur mest joð. Joðskortur er útbreyddur víða um heim og hefur verið gripið til þess ráðs, þar sem svo er ástatt um, að joðbæta matarsalt og hefur það gefist vel.

Joð hefur gríðarlega mikla sótthreinsandi eiginleika og vinnur á ýmsum sýklum, bakteríum og veirum, s.s. berklabakteríum, lifrabólgu B veirum, eyðniveirum og vinnur einnig gríðarlega vel á sveppi.

Joð leysist illa í vatni, en mun betur í sprittlausn eða glýceróli. Í vatni leysist joð ekki meira en í mesta lagi 0,03%. Joð vinnur mjög hratt, drepur nánast allar bakteríur á 10 sek. í 1% styrk og á 10 mín. í 0,0002% styrk. Joð/joðíð sprittlausn er talsvert notuð til sótthreinsunar á húð. Einnig er joð notað í glýceróllausn og er það einkum ætlað til nota á slímhúð. Joðspritt er væntanlega öruggasta sótthreinsiefni, sem völ er á, ef um er að ræða sótthreinsun á húð í eitt skipti, fáein skipti eða er notað á húð með löngu millibili. Það verkar hratt og hefur auk þess mjög breiða verkun á sýkla og etanól eykur á verkun þess og tryggir dreifingu þess á húðinni. Ef gera þarf strangar kröfur til sótthreinsunar á húð í eitt eða fáein skipti, ber því fremur að nota joðspritt en spritt eitt og sér. Joðspritt á þannig vel við, ef sótthreinsa þarf húð fyrir skurðaðgerð, töku mergsýna, stungu í liðhol eða önnur hol þar sem engar örverur eiga að vera.

Joðíð er jafnframt ertandi í miklu mæli og getur valdið óþol og ofnæmi. Joð reynist einnig vel á öðrum sviðum læknisfræðinnar því að geislavirkar samsætur joðs eru notaðar við krabbameinrannsóknir og gegn offvirkum skjaldkirtli en geislavirkt joð dregur varanlega úr starfsemi kirtilsins.

Annað forvitnilegt um joð:

Af þessu má ráða að joð er gífurlega nauðsynlegt frumefni okkur mönnunum og þrátt fyrir að almenn vitneskja um það sé af skornum skammti þá gefur það vel á ýmsum sviðum og vonandi að þessar litlu upplýsingar megi vera öðrum til gagns og gamans.

Heimildaskrá:

Rúnar S. Þorvaldsson, Eðlis- og efnafræði, orka og umhverfi, bls. 29-47
Elísabet S. Magnúsdóttir: Næring og hollusta, bls. 82-83
http://www2.fa.is/deildir/Efnafraedi/nat123/sumar/lotukerfid/53.html
http://www.rala.is/utgafa/fjolrit/fjolrit204.pdf formáli, bls. 5
http://www4.landspitali.is/lsh_ytri.nsf/pages/rontgen_0012
http://www.hi.is/pub/liflyfjafr/thorbjorg/sotthreinsiefni.htm
http://www.ged.is/media/manneldi/rannsoknir/skyrsla.pdf 3. Næringarefni og hollusta fæðunnar; Steinefni; Joð; bls. 28
http://www.namsgagnastofnun.is/lotukerfi/I.htm

Höfundur: Laufey Dóra Guðbjargardóttir, NÁT 123


 


Fjölbrautaskólinn við Ármúla, mars 2005/SK