Til baka
 
Alkóhól (etanól)
Alkóhól er samheiti á lífrænum efnum er hafa sams konar efnafræðilega gerð og af þessum efnum er etanól langmest notað. Etanól er vökvi sem blandast vatni í öllum hlutföllum.  Vatnsblanda etanóls er oft nefnd sprit en sterkt sprit er ca. 96 % alcohol í vatni.  Ef styrkur alcohols er umfram 2,5 % í blöndu telst vökvinn vera áfengi.

Alkóhól hefur verið notað sem róandi lyf eða svefnlyf frá örófi alda og misnotkun etanóls því einnig ævagamalt fyrirbæri.  Alkóhól er hinn dæmigerði vímugjafi. Alkóhól hefur umtalsverð verkjadeyfandi áhrif og einnig kvíðastillandi.  Í litlum skömmtum hefur alkóhól róandi verkun en svefnverkun í stærri skömmtum.  Erfitt er að segja til um skammtastærð fyrir róandi verkun og svefnframkallandi en það er mjög einstaklingabundinn munur eins og líkamsþyngd, þreyta, kyn og hvort viðkomandi hafi borðað mat á undan drykkju.  Alkóhól hefur stutta verkun.  Róandi verkun og svefnverkun alcohols er bundin við taugungamót vítt og breitt í miðtaugakerfinu.  Verkunarháttur etanóls tengist áverkun á gass, en etanól verkar auk þess á glútamínsýru, morfínpeptíð og dópamín.  Verkjadeyfandi verkun alcohols kann með einhverjum hætti að tengjast verkun morfíns og skyldra lyfja á sársauka.  Áhrif alcohols á miðtaugakerfið er heilarýrnun, þ.e. rýrnun á berki í stóra heila og litla heila sem er algeng meðal alkóhólista  en einnig meðal einstaklinga sem neyta áfengis á félagslegu stigi (helgarfyllerí). Að öðru leyti er verkunarháttur alcohols óþekktur.

Alkóhól hefur auk þess ýmis önnur lyfhrif s.s. víkkun æða, aukin þvaglát, aukna saltsýrumyndun í maga og breytingar í fituefnaskiptum.  Lifrin skiptir meginmáli við umbrot etanóls í líkamanum. Við umbrot áfengis myndast orka sem nýtist líkamanum.  Etanól er að þessu leyti mjög sérstakt efni.  Langvarandi áfengisneysla veldur margs konar sjúklegum breytingum m.a. alvarlegum og jafnvel banvænum lifrarskemmdum, meltingartruflunum og enn fremur vitsmunaskerðingu og getur stuðlað að geðveikikenndu ástandi en það á einkum við ef um mikla og langvarandi drykkju er að ræða. Heilarýrnun hjá miklum ofneytendum áfengis skerðir heilabörkinn meira en hún víkkar út holrúm heilans. Sýnt hefur verið fram á að rýrnunin getur að nokkru leyti gengið til baka eftir að ofneytandinn hefur haldið sig frá neyslu áfengis m lengri tíma. Sú sjúkdómsmynd sem fram kemur vegna heilarýrnunar getur verið allt frá minniháttar skerðingu á skynjun og greind yfir í greindarskerðingu á hæsta stigi.

Hjá ofneytendum alcohols sjást stundum einkenni er líkjast Parkinsons sjúkdómi s.s. skjálfti, stífleiki vöðva, hægar hreyfingar o.s.frv. en það hlýtur að tengjast verkun etanóls á dópamín.

Stundum kemur fyrir að menn ,,deyja” eftir neyslu áfengis.  Áfengisdauði kemur fyrir þegar þéttni alcohols í miðtaugakerfinu er slík að um svæfingu er að ræða.  Ef þéttni alcohols í blóði er umfram 3,5 ‰ (promille = 1g/1000ml) er hætta á banvænni eitrun.  Sjaldgæft er að menn lifi af áfengiseitrun ef þéttni alcohols í blóði er umfram 5 ‰.

Vandamál þeirra er ánetjast alkóhóli eru margvísleg. Fyrir utan öll þau félagslegu vandamál sem fylgja langvarandi drykkju má nefna bilun á starfsemi líffæra og líffærakerfa og þá ekki síst á lifur og miðtaugakerfið. Sum vandamál sem rekja má til truflunar á starfsemi miðtaugakerfis eru kölluð sálræn eða andleg. Þá er átt við hegðunarvandamál, hugstreitu og jafnvel geðveikikennd fyrirbæri eins og geðdeyfð.

Að lokum má benda á að styrkleiki áfengs drykkjar breytir áhrifum þannig, að því sterkari sem drykkurinn er því meira magn frásogast á hverri tímaeiningu og því meira magn verður af alkóhóli í blóði og meiri áhrif á miðtaugakerfið.



Höfundar verkefnis og vefarar: Guðbjörg Hulda Einarsdóttir, Hólmfríður Ásta Pálsdóttir og Sólveig Ósk Aðalsteinsdóttir.
Uppfært: apríl 2001