Hvers konar efni, sem verka þannig á miðtaugakerfið, að menn geta við áframhaldandi töku þeirra í stuttan tíma eða til lengdar vanist á að nota þau svo óhæfilega, að heilsu þeirra eða heill annarra er stefnt í hættu, nefnast ávanaefni. Ef um lyf er að ræða, kallast slík efni ávanalyf. Mörg ávanaefni og ávanalyf geta við langvarandi töku haft slík áhrif á menn, að sjúkleg fíkn myndast í efnin, þ.e.a.s. að allt líf og starf þeirra snýst um það eitt að afla sér þeirra efna eða lyfja (fíkniefna, fíknilyfja). Þannig má segja að fíkn sé eins konar hástig ávanans, og því talað um ávana-og fíknilyf og efni.Áhrif vímugjafa á miðtaugakerfið Enginn veit með vissu hvers vegna sum efni og lyf, sem verka á miðtaugakerfið, valda ávana og fíkn og önnur ekki. Ávani og fíkn tengist oft, en ekki alltaf, þoli og fráhverfseinkennum. Hjá mönnum breyta efni, sem valda ávana og fíkn, starfsemi miðtaugakerfisins á þann veg, að skynjun umhverfisins og viðbrögð við því breytast og oft mjög mikið, m.a. rangskynjanir (að skynja eitthvað sem ekki er til eða öðruvísi en það er). Þessu ástandi er oft, en þó ekki alltaf, samfara sérstök vellíðan, og hefur það ástand verið kallað ,víma” og efni sem valda vímu nefnd vímugjafar (dóp). Eftir neyslu ákv. vímuefna komast neytendur í vímu, er hverfur þegar efnið er að mestu horfið úr miðtaugakerfinu. Helstu einkenni vímu eru: 1) Neytandinn finnur til þæginda og vellíðunar, þótt síðar geti orðið vart ýmiss konar vanlíðunar. Samfara þessu verður meiri eða minni slæving á starfsemi miðtaugakerfisins. 2) Hann missir að einhverju leyti skynjun og sér oft minni hluta af umhverfinu en ella og sér yfirleitt ekki eins skýrt og áður. Hann tekur líka síður eftir því sem fyrir augu og eyru ber og lætur sig minna skipta en ella ef hann verður fyrir sársauka. Tímaskyn truflast nokkuð. 3) Hann missir dómgreind þannig að hann verður óhæfari að draga ályktanir af því sem hann sér, heyrir eða finnur. Nýminni og tileinkun námsefnis minnkar. Af þessum sökum er hætt við að hvers konar hugarvinna (,,heilavinna”) veitist manni sem er í vímu erfið. Sjálfur gerir hann sér litla grein fyrir þessu og finnst jafnvel að allt gangi betur. 4) Hann missir hömlur (,,afhamlast”)
þannig að hann skiptir minna máli hvernig hann hegðar
sér og hvort hann veldur sjálfum sér eða öðrum
tjóni. Hann verður að öllum líkindum ófeiminn
við að umgangast og tala við hvern sem er og segir sennilega
ýmislegt sem hann sér eftir þegar víman rennur
af honum. Af þessum sökum kann hann að valda hneykslun og
jafnvel afbrotum í vímunni. Stundum kemur fyrir að hann
man ekki neitt hvað gerðist meðan hann var í vímunni.
Höfundar verkefnis og vefarar: Guðbjörg Hulda Einarsdóttir, Hólmfríður Ásta Pálsdóttir og Sólveig Ósk Aðalsteinsdóttir. Uppfært: apríl 2001 |