LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999. / Bein.

Beinkröm.

    beinkröm:
Beinkröm, svignuð hné.

Hvers vegna beinkröm?

Beinkröm er vaneldissjúkdómur sem stafar ýmist af því að í fæðu skortir kalk og fosfór eða þá að líkaminn getur ekki nýtt sér þessi efni úr fæðunni. Oft eru það báðir þættir sem spinna saman. D-vítamín er líkamanum nauðsynlegt til hagnýtingar kalks og fosfórs, en úr hvorutveggja eru bein og tennur gerð. Vaneldi á því orsakar beinkröm, en sjúkdómurinn er meðal annars fólginn í því beinin harðna ekki, verða lin og bogna því. Þar sem börn fá ekki að njóta sólarljóss er beinkröm mjög algeng. Ástæðan er sú að í sólarljósinu eru sérstakir geislar sem kallaðir eru útfjólubláir geislar, sem smjúga inn í ystu lög húðarinnar og hafa sérstök áhrif á fituna sem þar er og æðarnar, sem víkka út. Sum fituefnin í blóðinu breytast þannig fyrir áhrif geislanna, að þau berast með blóðstraumnum til beinanna, örva þau kölkun þeirra, og geta beinin ekki kalkað nema þessi efni hjálpi til. Þau hjálpa einnig til við það að kalkið, sem berst með fæðunni, sogist upp í garnirnar og berist þaðan inn í blóðið. D-vítamín er því fyrst og fremst nauðsynlegt til þess að kalk geti safnast saman í beinin , en það er skilyrði þess að að þau verði föst og haldgóð, því að kalklaus bein eru lin og eftirgefanleg. Til þess að beinin geti kalkað eðlilega eru þrjú höfuðskilyrði nauðsynleg; líkaminn þarf að fá nægilegt kalk, fosfór og D-vítamín.

Einkenni beinkramar.

Beinkröm altekur líkamann. Áhrifa vaneldis gætir þó mest í beinum, því að þau eru að miklu leyti byggð úr kalki og fosfór. Skortur þessara efna veldur því að beinin verða linari en eðlilegt er og beygjast því fremur og beyglast.

    Þegar það dregst að brjóskið beingerist, það er að segja að kalk og fosfór setjist í það, heldur það áfram örum vexti í beinendum. Þar orsakar það fyrirferðaraukningu sem greina má á úlnliðum, ökklum og eins á mótum rifja og geislunga. Önnur afleiðing beinkramar er sú, að höfuðmótin lokast seinna en ella, getur verið opin allt til tveggja ára aldurs í stað þess að lokast á fyrsta ári. Einnig tefst tanntakan.

Vegna þess hve beinin eru lin, geta útlimabeinin svignað , einkum fótleggir, þegar barnið fer að ganga. Sjást þær breytingar mun betur í röntgensjám heldur við vanalega skoðun. Sveigjan á fótleggjunum verður oft svo mikil, að barnið verður hjólbeinótt eða kiðfætt og býr iðulega að því alla ævi, því að slík lýti er erfitt að laga.

Hvað er hægt að gera?

Til að komast hjá beinkröm er nauðsynlegt að barnið fái nægan D-vítamínskammt en það fær það úr þorskalýsi. Þorskalýsi hefur löngum verið notað til varnar beinkramar og hefur það virkað mjög vel. Einnig er sólarljós mjög góður vítamíngjafi en úr geislum sólar vinnur líkaminn úr D-vítamín.

Áður fyrr var beinkröm mjög algengur sjúkdómur. Hann fyrirfannst hjá nær öllum börnum og var hann þá að mestu rakinn til vaneldis. Í stórborgum var það bæði kolareykur (húsin voru kynd upp með kolaofnum) og fátækt að kenna að svo mikið var um beinkröm en reykurinn frá kolabruna var svo þykkur að geislar sólar náðu ekki til borgarbúa og fátækahverfin voru mest allt þröng húsasund og þar var ekki mikil birta né nægur matur. Í dag er mjög lítið af því að börn fái beinkröm. Ástæðan er aukið fæðuframboð og þá með betri fæðu og einnig að læknavísindum hefur farið svo mikið fram að núna er nóg að taka inn vítamín í töfluformi og vandinn er leystur.

Upp síðuna. / Til baka / Heimildaskrá / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999 /


Beinavefurinn. Bein.
Höfundar: Eyjólfur Þorkelsson, Jóhann Ingi Guðmundsson og Sjöfn Gunnarsdóttir.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 30. nóvember 1999.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/bein14/krom.htm