Hálsliður.
|
Hryggsúlan ber uppi líkamann og nær frá kúpubotni og niður í þjóhnappa.
Hún er samsett úr 33-34 óreglulegum beinum. Í hreyfanlegum hluta hryggjar eru
7 hálsliðir, 12 brjóstliðir, 5 lendarliðir. Neðst er spjaldhryggurinn (spjaldbein) sem er óhreyfanlegur
af því að í honum eru 5 samvaxnir liðir.
Allra neðst í hryggsúlunni er rófubeinið, 4-5 litlir samvaxnir liðir.
Hver hryggjarliður getur aðeins hreyfst lítilháttar, en samanlögð hreyfing liðanna allra veldur all verulegum sveigjanleika hryggsúlunnar sem heildar. Hryggurinn er mestur um sig frá hálsliðum og niður að tengingu spjaldhryggs við mjaðmabein. Það er vegna þess að þyngdin flyst þar yfir á fæturna. Á hryggnum eru 2 framsveigjur og tvær aftursveigjur. Sveigjurnar auka styrk og liðleika hryggjarins. Hryggjaliðir eru tengdir sterkum liðböndum, og á milli þeirra eru þjálir liðþófar. Sérhver þófi er gerður úr sterkri bandvefshlíf, sem umlykur hlaupkennt innra efni. Þessi samsetning gefur næga fjöðrun til að veita nokkra hreyfingu í allri hryggsúlunni. Liðþófarnir eru höggdeyfar. Stundum rifnar liðþófi og veldur það þrýstingi á rætur mænutaugar. Það er afar sársaukafullt og nefnist skessuskot eða þursabit. Bygging liðanna er eins enda þótt þeir séu misjafnir að stærð og útliti. Að framan er liðbolur en að aftan er liðboginn, út úr honum standa tveir þvertindar og hryggtindur. Hægt er að finna hryggtindinn með því að strjúka fingri niður miðjan hrygginn. Hryggtindurinn og þvertindarnir eru festipunktar fyrir vöðva og liðbönd. Þvertindarnir hafa mismundi útlit eftir staðsetningu. Í hálsliðunum er gat í þverhryggina fyrir hryggslagæðina, en hún sér heilanum fyrir blóði. Í brjóstliðum hafa þverhryggirnir liðfleti þar sem rifbeinin eru fest. Liðbolur og liðbogi mynda hring um liðgatið og í allri hryggsúlunni mynda liðgötin til samans mænugöngin. Milli liða í háls, brjóst, og lendaliðum eru sveigjanlegir hryggþófar úr brjóski sem skapa hreyfanleika hryggjar. Hryggþófarnir jafna þrýsting og eru jafnframt liðatengsl. Síðan eru litlir liðfletir milli liðboganna og í hreyfanlega hluta hryggsúlunnar. Utan um hryggþófann er fastur trefjahringur en innan í er linari kjarni. Þess vegna getur þófinn breytt lögun sinni eftir því hvort hryggurinn er beygður fram eða aftur. Þegar hryggurinn er beinn er álagið minnst á hryggþófana. Með því að halda eðlilegri sveigju í hryggnum þegar þungum hlutum er lyft, er kjarnanum forðað frá klemmu og þrýstingi. Mænan sendir taugaboð til vöðva og tekur á móti boðum frá skynfærum gegnum mænutaugarnar. Þessar taugar liggja út um hryggþófagötin. Ef hryggþófar skaðast leiðir það til alvarlegra bakverkja. Þar sem skaðaður þófi þrýstir á mænutaugar í lendaliðum fær viðkomandi þjótak. Þó meiðslin séu í hryggnum fer sársaukinn niður í fót, vegna þess að taugar sem liggja niður í fót eru snertar. |
Upp síðuna. / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999 / til baka