LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999.
Beinbrot.
Verkefni í líffæra- og lífeðlisfræði mannsins - LOL 103.

Höfundar:
Rakel Grettisdóttir og Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir.

Efnisyfirlit:
Beinbrot.
Græðsla beina.
Tegundir brota.
Heimildaskrá.

   

Beinbrot.

Beinbrot er gamalkunnt böl mannskepnunnar. Það er svo algengt að flestir brotna einhverntíma um ævina. Bein eru stökk og brothætt. Þeim hættir því við að brotna einkum við byltu eða högg þ.e. ef beinið verður fyrir meira álagi en bygging þess þolir. Algengasta beinbrotið er afturskekkt úlnliðsbrot. Þetta brot er svo algengt vegna þess að mennirnir hafa frá ómuna tíð reynt að forða sér frá falli með því að bera hendurnar fyrir sig. Mynd 1

beinbrot:
Hér er sýnt brot á úlnlið sem er eitt það algengasta af öllum beinbrotum. Þetta brot þarf að skorða fast í sex til átta vikur og það á að gróa á átta til tólf vikum.

Öllum beinbrotum fylgir sársauki, bólga og skert hreyfigeta. Í sumum tilfellum verður húðin líka mislit vegna blæðingar.

Beinbrotum getur fylgt mikil blæðing. Ef stór bein brotna t.d. lærleggur þá getur blæðingin numið allt að 1-2 lítrum.

Opin beinbrot bjóða sýkingum heim. Sýking í beini er sársaukafull og oft getur reynst erfitt að sigrast á henni. Brotið grær þá ekki vel og í verstu tilfellum gæti þurft að aflima sjúklinginn. Æða- og taugaskemmdir geta líka átt sér stað þegar um brot er að ræða. Hvassir beinendar geta skaðað nærliggjandi taugar. Þessi sköddun getur svo leitt til lömunar eða tilfinningaleysis neðan við brotið.

Brotin bein læknast með því að beinmyndandi frumur mynda nýtt bein sem sameinar beinendana.

Upp síðuna.


    Græðsla beina.

Eins og áður sagði hættir beinum mjög til þess að brotna. Hins vegar gróa þau auðveldlega og að mestu að sjálfu sér. Græðslan byrjar í rauninni um leið og beinið brotnar og í skipulagðri atburðarás. Fyrst mynda rifnar æðar á brotstaðnum blóðkökk sem lykur um hann. Eftir nokkra daga hafa steinefnin frá hvössum brotendum endursogast í blóðstreymið þannig að þeir verða mjúkir og gúmkenndir. Um leið hefur trefjanet úr bandvef vaxið í gegnum blóðkökkinn og límt brotið lauslega saman. Í þessum kökki birtast beinmyndandi frumur sem styrkja samskeytin með óleysanlegum kalsíumsöltum og öðrum steinefnum. Svo eftir tvær til þrjár vikur má sjá á röntgenmynd kalsíumríkt nýtt bein sem brúar bilið milli beinendanna. Þegar það svo harðnar verður beinið starfhæft á ný.

Þessi framvinda er tímafrek, miðað við að rifin húð grær á nokkrum dögum, getur bein þurft mánuði til að gróa. Hins vegar er það undir ýmsu komið hversu langan tíma brot er að gróa, svo sem vefjagerð brotna beinsins, eðli brotsins og aldri viðkomandi. Nægileg kölkun til að styrkja og herða nýtt bein og vöxtur og fjölgun beinfruma gerist mjög hægt. Blóðskammtur til beina er mjög smár og er mótstaða beina þess vegna lítil ef þau sýkjast. Bein getur verið brotið á einum stað, kurlað í marga parta, kramið í hálfgerða klessu eða undið og aflagað úr hófi fram.

Áður en bein geta byrjað að gróa þarf að lagfæra legu brotendanna, annað hvort með handafli eða skurðaðgerð og þá að festa þau með gifsumbúðum, spelkum, málmspöngum, nöglum eða skrúfum.

Beinbrot:
Hér er sýnt í smáatriðum hvernig bein grær eftir brot. Brotin bein læknast með því að beinmyndandi frumur mynda nýtt bein sem sameinar beinendana.

Upp síðuna.


    Tegundir brota.

Einungis eru til þrjár tegundir beinbrota. Þær eru: Einfalt brot, opið brot og ófullkomið brot.

Þegar um einfalt brot er að ræða þá hefur beinið sjálft aðeins brotnað en aðlæg líffæri eða vefir lítið eða ekkert skemmst. Þá er húðin yfir brotstaðnum heil.

beinbrot:
Einfalt beinbrot.
Ef brotið er opið þá er um að ræða verulegar skemmdir á mjúkum aðlægum vefum þ.á.m. húð. Þá er sár á húðinni yfir brotstaðnum eða við hann, sem nær inn að brotinu. Utan að komandi högg getur valdið sárinu eða þá að hvass beinendi stingst út í gegnum húðina.

beinbrot:
Opið beinbrot.

Brotið er ófullkomið ef brotlínan nær ekki í gegnum beinið og brotið líkist sprungu.

Upp síðuna.


    Heimildaskrá:

Alan e. Nourse. Mannslíkaminn. Almenna bókafélagið. 1965.

Åbyholm, Frank. Kalstadstuen, Arne. Skulberg, Andreas. Skyndihjálp. Rauði kross Íslands.1998.

Heimilislæknirinn III. Iðunn. Reykjavík. 1987.

Upp síðuna. / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999.


Beinavefurinn. Beinbrot.
Höfundar: Rakel Grettisdóttir og Sóley Gíslína Guðgeirsdóttir..
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 30. nóvember 1999.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/bein17/bein17.htm