LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999. / Vefjafræði beina.

Millifrumuefni beins.

    Millifrumuefni beins er venjulega skipt í tvennt, það er að segja í þræði og grunnefni. Þræðirnir eru kollagenþræðir en grunnefninu er svo skipt aftur í tvennt eða í lífræn og ólífræn grunnefni.

Lífrænu grunnefnin eru próteoglykön (chondroitin sulfat, keratan sulfat) og glykoprótein (sialoprótein, osteocalcin). En ólífrænu grunnefnin eru að mestu kalsíum og fosfat sem mynda hydroxyapatite. Millifrumuefnið tekur þátt í að vefirnir beingerist.

Kollagen er prótein sem, ásamt súrum fjölsykrum, er megin uppistaðan í ýmsum tengivefjum. Kollagen er að vísu algengasta próteinið í mannslíkamanum eða um 30 % af öllum próteinmassa líkamans. Prótein tengivefja eins og brjósks, húðar, frumuveggjar o.s.frv. þarf að vera sveigjanlegt og sterkt. En það getur einmitt kollagenið með endurteknu mynstri sem kallast þrígormur. Ekkert annað prótein getur myndað þetta mynstur. Nafnið þrígormur segir sig sjálft, það er um að ræða þrjá gormlaga einingar sem tengjast saman með vetnistengjum, oft er þessu líkt við þrjá þræði sem er vafið upp eins og í reipi. Einingar þrígormsins, sem kallast Trópókollagen, eru úr vatnsleysanlegu kollageni, en vetnistengin sem tengja gormlaga einingarnar saman gera kollagenið hins vegar óleysanlegt í vatni. Trópókollagenin finnast bara í fóstrum og í ungviði, en með aldrinum raðast þau saman í þrígorm kollagens.

Kollagen er prótein sem samanstendur að mestu úr amínósýrunum glýsín (1/3), prólín og hýdroxyprólín. Þar sem þrjár peptíðkeðjur raða sér saman og mynda trópókollagen.

Kollagen próteinum er oftast skipt í flokka eða gerðir, helstu eru:

  1. Er sú gerð sem er mest af, en hún myndar þykka þræði.
  2. Er einkum í glærbrjóski og elastísku brjóski, mjög grannir þræðir.
  3. Er sú gerð sem myndar reticular þræði, sem eru mjög fíngerðir þræðir.
  4. Er í lamina basalis, en hún myndar ekki þræði.

Kollagen af gerð 1, 2 og 3 mynda trópókollagen fibrillur, en fibrillur þessar geta raðað sér í fibrur og knippi. Kollagen af gerð 4 skipa sér aftur á móti í net.

C-vítamín er nauðsynlegt til að mynda kollagen, en það er nokkurs konar fylliefni sem bindur saman frumurnar. Eins og áður sagði myndar kollagen próteingrindina í beinvef og brjóski. Það er líka kollagen sem límir vefina saman ef við fáum sár á líkamann. Þannig segja má að C-vítamín stuðli að því að sár grói eðlilega, þá bæði beinbrot, brunasár og flest öll önnur sár.

Upp síðuna. / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999 / til baka


Beinavefurinn. Vefjafræði beina.
Höfundar: Anna Kristín Óladóttir, Hafdís Þórunn Helgadóttir, Hildigunnur Kristinsdóttir og Jóna Katrín Guðnadóttir.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 30. nóvember 1999.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/bein4/kollagen.htm