S Y K U R S Ý K I
 

Á aðalsíðu 

Blóðsykurfall

Blóðsykurfall er ástand sem getur myndast verði blóðsykur of lágur. Það á sér yfirleitt skamman aðdraganda. Helstu orsakir blóðsykurfalls eru of mikið insúlín, of lítil næring, eða rangt mataræði og einnig gæti það stafað af auknu álagi á líkamann, þ.e. mikil líkamleg vinna og óvenju mikil hreyfing. Blóðsykursstyrkur er mældur í millimólum á lítra mmol/l. Hjá heilbrigðum er blóðsykursstyrkurinn venjulega 5mmól/l en getur hlaupið á milli 3-8mmól/l. Hjá sykursjúkum einstaklingum sem nota insúlín eða töflur til að lækka blóðsykursstyrkinn getur hann orðið lægri en 3mmól/l, þá er talað um sykurfall. Þegar um væg sykurföll er að ræða geta þau hjálpað til við stjórnun blóðsykurssins, það segir sjúklingnum að hann þurfi að minnka insúlínskammtinn. Fái sjúklingur hins vegar aldrei sykurfall er það merki um háan blóðsykur og það að endurskoða þurfi meðferðina. Séu sykurföllin hins vegar tíð og blóðsykurinn fari mikið niður fyrir 3mmól/l þá geta þau verið skaðleg fyrir heilastarfssemina. Yfirleitt er hættan þó lítil vegna þess að viðbrögð líkamans eru á þá leið að hann skilar út hormónum sem verka á lifrina og losa út glúkósaforða hennar inn í blóðrásina.

Einkenni blóðsykurfalls geta verið mismunandi milli einstaklinga en yfirleitt líkjast þau stresseinkennum og taugaveiklun. Því er hætta á að óviðkomandi geri ekki greinarmun þar á. Við blóðsykurfall dreifist, meðal annars, adrenalín út í blóðið og veldur svitaköstum sem slá út um allan líkamann, skjálfta sem verður til þess að fólk á erfitt með að stjórna hreyfingum, þungum og hröðum hjartslætti, þreytu og skapgerðarbreytingum, svo sem pirringi, hræðslu og óróleika.

 


Vefari: Jón Jökull Óskarsson

Höfundar: Linda Björk Sigmundsdóttir, Kristrún Sif Kristinsdóttir, Jón Jökull Óskarsson og Svanhildur Inga Ólafsdóttir