Til baka
Almennt um nýrnahettubörk


Nýrnahettubörkur ~ cortex suprarenalis er ytra borð nýrnahettunnar, gerður úr þekjuvef. Í nýrnahettuberki eru þrjú lög; ytra lag (zona glomerulosa), miðlag (zona fasciculata) og innra lag (zona reticularis). Í nýrnahettuberkinum myndast yfir þrjátíu hópar stera sem allir eru kólesteról að byggingu og eru kallaðir barksterar. Aðeins þrír hópar af þessum þrjátíu fara út í blóðrásina og taka því þátt í stjórnun líkamans, en þessir hópar eru:
1) Sykursterar (glucocorticoids): gegna veigamiklu hlutverki í sykurefnaskiptum, m.a. að stuðla að umbreytingu kolvetna í forðanæringarefnið glykogen í lifrinni. Undir álagi losar líkaminn þennan hóp hormóna. Mikilvægast þessara hormóna er kortisól. 

2) Saltsterar (mineralocortiocoids): tempra magn og jafnvægi ákveðinna efna í líkamanum, einkum Na (natríum) og K (kalíum) með því að örva eða letja nýru til að skilja salt úr blóði. Mikilvægast þessara hormóna er aldósterón.

3) Kynhormón: eru framleidd í nýrnahettuberki beggja kynja en það eru andrógen, estrógen og prógesterón.

Heiladingullinn temprar myndun allra barksterahormóna nema aldósteróns. Meðal þeirra sjúkdóma sem tengdir eru stórum skömmtum barkstera eru sáramyndun, háþrýstingur, æðakölkun og slitgigt.
 


 



Höfundar efnis og vefarar: Hildur Gestsdóttir og Hólmfríður Ásta Pálsdóttir
Verkefni í líffæra-og lífeðlisfræði mannsins, LOL 103, Fjölbrautaskóla Suðurlands
Síðast uppfært: október 2000