LOL 203, verkefni nemenda vorönn 2000. / Ýmsir sjúkdómar í meltingarkerfinu.

Sjúkdómar í endaþarmi.

Endaþarmurinn.
Endaþarmurinn eru síðustu 12 cm meltingarvegarins. Hann er tiltölulega einfaldur að gerð og er þakinn lagskiptum flöguþekjum til að vernda þá vefi sem undir eru. Endaþarmurinn endar síðan í endaþarmsopi, sem er ytra op innyfla þar sem losun úrgangs fer fram. Opið er 4 cm að lengd og oft kallað raufargöng.
Tveir þrengivöðvar í vegg raufargangsins gæta að endaþarmsopinu, innri raufarþrengir sem er sléttur vöðvi og ytri raufarþrengir sem er viljastýrður vöðvi (hringvöðvi). Við eðlilegar aðstæður er hringvöðvinn dreginn saman milli þess sem viðkomandi hefur hægðir.
Þessi hluti meltingarvegarins er örsjaldan til vandræða nema þegar um niðurgang og hægðatregðu er að ræða. Í rauninni má segja að gyllinæð sé eini algengi sjúkdómurinn á þessum stað. Einnig verður fjallað hér um rifu við endaþarmsopið og ristil við endaþarmsopið.

Hægðatregða.

Hægðatregða er skilgreind sem harðar og þurrar hægðir, sem erfitt er að losa sig við eða koma með margra daga millibili, og er vísað til seinagangs fæðumauksins í smáþörmunum. Ef að hægðaþörfum er ekki sinnt strax, frásogast vatnið og hægðirnar verða þurrar og harðna. Helstu einkennin eru sársauki og blæðingar við opið sem koma við hægðir og tilfinningin að vera ennþá mál eftir hægðalosun. Algeng orsök hægðatregðu er of lítil neysla af vökva og vöntun á grófmeti, þar sem trefjar eru ómeltanlegur hluti fæðunnar og haldast þess vegna í þörmunum

Upp síðuna

Niðurgangur.

Niðurgangur eru tíðar og þunnfljótandi hægðir sem verða þegar fæðumaukið fer of hratt eftir smáþörmunum. Niðurgangur getur komið skyndilega og án fyrirvara en varir þá stutt, getur einnig verið langvinnur ef hann stendur yfir í meira en 3 vikur. Niðurgangur er oftast af völdum veiru- og bakteríusýkinga og matareitrunar. Örverurnar erta slímhimnu smáþarmanna þannig að vökvamagnið (frásog vatsins minnkar) í hægðunum verður mikið. Þarmurinn verður óeðlilega virkur og dregst of kröftulega saman og veldur þannig krampakenndum kveisuverkjum.

Upp síðuna

Gyllinæð.

Rétt undir slímhúðinni í endaþarmsopinu liggja bláæðar, sem geta bólgnað og tútnað út. Vegna endurtekins aukins þrýsting sem kemur af harðlífi, einkum þegar rembst er af krafti, bólgna bláæðarnar út og verða æðahnútar. Þannig að gyllinæð er æðahnútar í endaþarmsopinu. Ein ástæða fyrir gyllinæð er sú að úrgangssnauð fæða með litlu trefjaefni myndar litla og harða hægðaköggla(harðlífi), sem geta skemmt vegginn yfir hringvöðvanum(Ytri raufarþrengir). Æðahnútarnir geta víkkað út, lengst og orðið hlykkjóttir á köflum og geta auðveldlega rifnað. Til eru 2 mismunandi gerðir gyllinæða.

  • Innri gyllinæð sem myndast alveg neðst í endaþarminum og sést ekki utanfrá.
  • Ytri gyllinæð myndast rétt innan við endaþarmsopið og getur sést utan frá ef hún skagar niður úr opinu. Þetta gerist við hægðir en hún getur horfið upp í opið aftur. Síðan getur hún skroppið niður allt í einu án þess að hægðir séu í gangi.
Ljósrauð blæðing sem kemur við hægðir er algengsta og oft eina einkennið. Kláði getur einnig fylgt við opið og slímkenndur vökvi myndast. Sjaldgæft er að fólk sé haldið alvarlegum vanda við gyllinæð en algeng er hún.

Gyllinæð:
Gyllinæð.

Upp síðuna

Rifa við endaþarmsopið.

Rifa eða sprunga við endaþarmsopið er ílangt sár, sem teygir sig frá hringvöðvanum og upp í endaþarmsgöngin. Sárir verkir og stundum blæðingar veldur spasmi í hringvöðvanum sem orsakast af hægðum sjúklingsins. Þessi sjaldgæfi sjúkdómur kemur oftast fyrir kvenfólk. Þetta má lækna með breyttu mataræði og hægðalyfjum, ef það dugir ekki þarf að grípa til skurðaðgerðar.

Upp síðuna

Ristill við endaþarmsopið.

Þetta er mjög sjaldgæfur sjúkdómur sem hér er um að ræða, þar sem eyðing verður á vef vegna ígerðar við endaþarmsopið og fistill myndast. Fistillinn er gangur sem liggur frá endaþarmi út á húð nálægt opinu. Út um gatið streymir þunnur gröftur sem etir húðina og veldur kláða. Fistillinn getur orsakast af krabbameini í digurgirni. Meðferðin við fistlinum er minniháttar skurðaðgerð til að opna hann og hreinsa gröftinn út.

Upp síðuna

LOL 203, verkefni nemenda vorönn 2000 / Ýmsir sjúkdómar í meltingarkerfinu


Meltingarvefurinn. Ýmsir sjúkdómar í meltingarkerfinu.
Höfundar: Hildigunnur Kristinsdóttir og Rakel Grettisdóttir.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 25. apríl 2000.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/melting3/sjukd.htm