Munnvatni er seytt af þremur munnvatnskirtlum: vangakirtlum,
sem eru stærstir og liggja framan og neðan við eyru; kjálkabarðskirtlum
sem liggja undir kjálka og tungudalskirtlum undir tungu. Seyti munnvatns
er bæði stjórnað af semju- og utansemjutaugakerfinu,
sem er mjög sérstakt þar sem þessi taugakerfi stjóna
yfirleitt gagnstæðum verkunum líffæra. Munnvatnskirtlarnir
seyta stöðugt munnvatni, en í svo litlu magni að við
verðum þess vart vör. Daglega seyta þeir 1-2 lítrum.
Þegar þeir komast í tæri við fæðu
eykst rennsli þess til muna og oft nægir lyktin af matnum eða
aðeins hugsunin um hann til að koma rennslinu af stað. Munnvatn
saman stendur af vatni, slímefni, steinefnum og próteinum
(aðallega músíni) og í því er einnig
ensímið amýlasi. Slímkirtlar, sem seyta slími,
eru innan á öllum meltingarganginum og er húð hans
því nefnd slímhúð.
Munnvatnið gegnir ýmsum hlutverkum. Það heldur
munnholinu röku, sem er nauðsynlegt t.d. þegar við tölum.
Það hjálpar til við að halda vökvajafnvægi
líkamans, þ.e. þegar líkamann vantar vökva
minnkar munnvatnsstreymið sem gerir það að verkum að
hálsinn þornar og við verðum þyrst. Munnvatnið
sér einnig um að halda munninum hreinum og losa hann við
bakteríur, dauðar frumur, matarleyfar o.fl. Síðast
en ekki síst á það stóran þátt
í meltingu fæðunnar. Það blandast fæðunni
er við borðum og gerir hana mjúka og vökvakennda. Próteinefnið
músín í munnvatninu gerir hana hála, svo við
eigum auðveldara með að kyngja. Amýlasinn gegnir því
hlutverki að hvata rofi sterkju og glúkósa yfir í
maltósa eða glúkósa. Þannig að efnamelting
fæðunnar hefst strax í munninum.
Myndin sýnir vangakirtil (efri kirtillinn á myndinni)
og kjálkabarðskirtil. Á myndina vantar tungudalskirtil
sem er staðsettur undir tungunni.