Munnur – cavum oris
 

 

Munnurinn er það op á líkamanum sem fæðan fer inn um. Ytra borð munnsins eru varirnar (labia oris), þær eru “dyrnar” sem fæðan fer um áður en melting hefst. Strax í munninum hefst melting, þar sem fæðan er möluð og blönduð munnvatni.


Munnurinn endar í koki. Hann er afmarkaður af vörum, kinnum, góm og raddglufu. Munninum er oft skipt í tvo hluta; annarsvegar holrýmið milli tanna og innra borðs vara og kinna og hinsvegar hið eiginlega munnhol. Munnholið er í raun fyllt með tungunni, sem er stór vöðvi sem fastur er við neðra borð munnhols. Á yfirborði tungunnar eru bragðlaukarnir sem greina sætt, súrt, salt og beiskt bragð. Aðal sýnilegu hlutar munnisins eru tennurnar, tungan og gómurinn. Munnur mannfólksins gegnir aðallega þremur hlutverkum; hann er hluti af meltingarfærum, hann er öndunarfæri og talfæri. Önnur hlutverk hans eru t.d. að hann er skynfæri og hluti af  “andlitstjáningarfærum”.


Munnurinn er fóðraður innan með slímhúð sem hefur að geyma nokkra litla kirtla sem, ásamt munnvatni úr munnvatnskirtlum, sjá um að baða munninn vökva og halda honum rökum og hreinum. Sérhæfðar slímhúðir klæða báða gómana og styðja við tennur. Einnig er tungan umlukin slímhúð sem er grófari en aðrar í munninum. Sú slímhúð hefur marga litla “nabba” sem hýsa bragðlaukana. Hið raka umhverfi munnsis og munnvatns-ensímin, hjálpa til við að mýkja fæðuna og undirbúa hana fyrir frekari meltingu.


Munnurinn er afbragðs gróðrarstía fyrir bakteríur og þess vegna eru hinir ýmsu munnsjúkdómar algengir kvillar. Hreyfingar munns, s.s. tal, tygging, kynging og hreyfingar tungu eru viljastýrðar, þeim er stjórnað af viljastýrðum vöðvum í andlitinu. Þau bein sem mest koma við sögu þegar talað er um munn, eru efri- og neðri kjálkabein (os mandibula og os maxilla) og gómbeinin tvö (os palatinum).

LOL 203, verkefni nemenda vorönn 2000.

Heimildir

Höf. verkefnis:  Katrín Guðjónsdóttir,  Katrín Magnúsdóttir, Kristín Laufey Steinadóttir, Sigrún Svafa Ólafsdóttir
Vefari:  Kristín Laufey Steinadóttir