Munnsjúkdómar
Skarð í vör og klofinn gómur:
 
Þessi sjúkdómur lýsir sér þannig að lóðrétt rás er í efri vörinni. Hún getur verið stutt eða náð alla leið upp í nefrótina og er annaðhvort eingöngu öðru megin en sjaldnar báðum megin. Oft verður nefið flatara en vanalega. Stundum liggur rásin áfram inn í efri góminn, gengur inn í miðjann góminn og teygir sig frá bakhluta tannanna upp í nefholið. Klofinn gómur er venjulega framhald á skarði í vör en getur komið fyrir sem einangraður sjúkdómur. U.þ.b. eitt af hverjum 1000 fæddum börnum hefur annan eða báða þessa sjúkdóma, stundum er hann ættgengur en orsökin er í flestum tilfellum óþekkt. Einstaka sinnum getur litningagalli orsakað sjúkdóminn. Yfirleitt er gerð aðgerð þegar barnið er ca. 12 vikna gamalt og árangurinn er venjulega ágætur með tilliti til lýtissins og málþroska.  Fylgikvillar eru helst þeir að klofinn gómur truflar stundum sog og kyngingu og alvarlegir talörðugleikar geta gert vart við sig. Ef skarð í vör er ekki lagað, getur það valdi sálrænum erfiðleikum vegna útlitslýtis. 
 

Áblástur:

Stafar af veirunni ,,herpes simplex”. Sýkingin skiptist í tvö stig. Fyrsta stig: Blöðrur myndast í munni sem breytast síðan í sár. Gómurinn verður bólginn og rauður og oft verður tungan hrjúf. Hiti getur hækkað og almenn vanlíðan fylgt. Því eldri sem sjúklingurinn verður því verra verður kastið. Eftir kastið liggur veiran í dvala þar til eitthvað vekur hana upp aftur. Það getur verið sterkt sólarljós, kvef eða veðrabrigði. Þá er um annað stig að ræða. Annað stig: Blöðrur myndast á eða við vörina, síðan springa þær og hrúðrið, sem einkennir áblástur, myndast.  Áblástur er algengur og að mestu hættulaus. Aðalhættan er ef sárin eru snert með fingrunum við fyrstu sýkingu, þegar ekkert ónæmi hefur myndast gegn veirunni, og fingurnir síðan bornir að augum geta myndast sár á hornhimnunni. 
 

Sár í munni:

 Munnsár er rof í slímhúðinni sem klæðir munnholið. Öll munnsár hafa svipað útlit hver sem orsökin er, en þær geta verið margar. Til dæmis:
1) Munnfleiður sem myndast við streitu eða fylgja öðrum sjúkdómum. Munnfleiður eru smá (2-3 mm í þvermál) og sitja oft í klösum sitthvoru megin í munninum. Þau eru sársaukafull og gróa á u.þ.b. 10 dögum. Munnfleiður eru algengari í ungum konum og sérstaklega hjá konum rétt fyrir tíðir. 
2) Sár sem koma við áverka t.d. við tannburstun, nuddsár frá gerfigómi, bruni frá heitum mat eða þegar maður bítur sig í tungu eða munn. Þessi sár eru stærri en munnfleiðursárin og hverfa oftast á rúmri viku. Nuddsár hverfa ekki fyrr en búið er að laga orsökina. 
3)  Sár sem stafa af sýkingum t.d. frá áblæstri þegar blöðrur í munnholi breytast í sár.
4) Sár sem fyrstu merki um illkynja æxli í munni eða tungu.
5) Sár sem merki um blóðleysi eða hvítblæði. 
Yfirleitt verður fyrst vart við sár þegar eitthvað kryddað eða súrt er borðað því þá verkjar í sárið. Öll sár eru svipuð útlits, gulleitir blettir með rauðum sárabörmum. Sár í munni eru mjög algeng og talað er um að einn af hverjum 10 sé hafi eitt eða fleiri sár dags daglega. Ef sár grær ekki á þrem vikum eða eru alltaf að koma aftur og aftur er rétt að leita læknis. 
 

Sveppir í munni:

 Sveppasýking í munni er oftast vegna sveppsins ,,candida albicans” (þruska), en hann er einn þeirra örvera sem oftast eru til staðar í munninum við venjulegar aðstæður. Þessi sveppur nær sér oft á strik ef varnir í munni skerðast vegna veikinda eða ef sýklalyf hafa raskað hinu eðlilega jafnvægi milli örvera í munni. Þá myndast aumir blettir í munni og stundum í koki. Blettirnir eru upphleyptir og gulhvítir á lit. Ef þeir skafast af verður eftir aumt óvarið svæði. 
 Margir fá svona sveppasýkingu einhverntíman á ævinni. Hún er algengust hjá ungbörnum og gömlu fólki. Meðferðin felst í sveppalyfi í allt að 10 daga. Sýkingin er ekki hættuleg og læknast venjulega fljótt en hefur tilhneigingu til að koma aftur. 
 

Þykkildi í munni:

 Þykkildi geta myndast í slímhúð munnhols eða tungu. Stundum gerist þetta til að vernda svæði, þar sem skörp brún á tönn eða gerfigómi nuddast við og stundum er um að ræða andsvar munnslímhúðarinnar við reykingum. Oftast er þó orsökin óþekkt. Þykkildið er hvítt eða grátt að lit og getur verið misstórt. Í fyrstu fylgja því engin óþægindi en síðar verður það hrjúft og stíft viðkomu og getur orðið næmt fyrir heitum eða krydduðum mat. 
 Meðferðin felst í því að uppræta allt sem getur hafa leitt til þykkildisins. Oft þarf ekki meira að gera, en ef þetta lagast ekki þarf að skera þykkildið burt og gera á því vefjarannsókn. Í þrem af hundrað tilvika benda svona þykkildi til æxlis í munni. 
 

Steinar í göngum munnvatnskirtla:

  Steinn myndast í gangi munnvatnskirtils þegar efnasambönd í munnvatni falla út á litla ögn í ganginum. Steinninn lokar ganginum að hluta og við máltíð kemst mestur hluti munnvatnsins sem myndast, ekki framhjá steininum og safnast fyrir aftan við hann. Steinar eru algengastir  í kjálkabarðskirtlum í munnbotninum.
 

Barkakýlisbólga:

 Oftast vegna bakteríu eða veirusýkinga og kemur oft í kjölfar kvefs eða hálsbólgu. Hún veldur bólgu í slímhúð barkakýlis og í raddböndum. Í börnum getur hún stíflað öndunarveg en í fullorðnum er það yfirleitt ekki vandamál. Stundum stafar barkakýlisbólga af ertingu en ekki sýkingu, t.d. af tóbaksreyk, áfengi eða þegar raddböndunum er ofboðið
 Aðaleinkennið er hæsi, oft þannig að sjúklingurinn getur ekki stunið upp orði og það er sársaukafullt að tala.
 

Tungubólga:

 Toturnar á tungunni myndast ekki á eðlilegann hátt. Yfirborð tungunnar verður slétt og dökkrautt að lit og stundum fylgja særindi, einkum ef neytt er kryddaðrar fæðu. Stundum er tungubólga einkenni blóðleysis.
 

Tannholdsbólga:

 Tannholdsbólga stafar af sýklu sem myndast neðst á tönnunum. Eiturefni frá sýklu mynda smásæ sár á brúnum gómsins sem sýkjast síðan og bólgna. Þegar gómbrúnin bólgnar myndast holrúm milli góms og tannar. Þar safnast enn meira af sýklu, gómurinn bólgnar enn meira, holrúmið stækkar og ástandið versnar smám saman. 
 Einkennin eru þau að gómurinn verður rauður, mjúkur og glansandi, auk þess að vera bólginn. Úr slíku tannholdi blæðir auðveldlega. Tannholdsbólga er mjög algeng, u.þ.b. 9 af hverjum 10 fullorðnum eru haldnir sjúkdómnum, en oftast á lágu stigi. Aðalhættan er sú að sjúkdómurinn leiði til alvarlegs tannholdssjúkdóms eða jafnvel Vincents sjúkdómsins sem er sársaukafull bakteríusýking í gómnum eða tannholdi. 

Til baka á aðalsíðu

LOL 203, verkefni nemenda vorönn 2000.