Til baka á steinefni

Járn:

Járn er algengast allra snefilsteinefna í líkamanum. Í líkamanum eru 3 til 5 g af járni, aðallega bundiðí efnasambandinu hemóglóbíni (blóðrauða) í rauðum blóðkornum. Annað járnsamband er mýóglóbín (vöðvarauði), það er skylt hemóglóbíni.

Hlutverk járns: upp síðuna

 1. Mest af járni í líkamanum er bundið hemóglóbíni í rauðu blóðkornunum. Hemóglóbín gefur blóðinu rauða litinn. Hlutverk járns í hemóglóbíni: Það bindur súrefni, sem andað er inn og flytur það með blóðinu frá lungum til vefja.
 2. Járn finnst í mýóglóbíni sem geymir súrefni í vöðvum.
 3. Járn er nauðsynlegt fyrir virkni margra ensíma í líkamanum.

Meðhöndlun járnsí líkamanum: upp síðuna

Járn tapast ekki úr líkamanum með þvagi og svita, heldur tapast það aðallega með dauðum húð- og slímhúðarfrumum. Ákveðið varnarkerfi er í þörmum sem stýrir frásogi járns. Konur tapa einnig járni við tíðablæðingar þar af leiðandi er járnþörf kvenna allmennt meiri en karla.

E ekki er æskilegt að meira járn frásogist en það magn sem nýtist í líkamanum, þar sem llíkaminn getur ekki losað sig við umfram magnið. Ef þörfin eykst, þá verður meira frás og líkaminn getur safnað nokkrum járnbirgðum og geymir hann þær aðallega í lifur, milta og rauðum merg.

Járnið geymist í próteinsamböndunum ferritíni og hemósíderíni og flyst um líkamann í blóðinu sem transferrín, sem einnig er próteinsamband.

Auðveld leið til að mæla járn í líkamanum er að mæla hemóglóbín í blóði.
Nákvæmari mæling er að mæla járnbirgðir líkamans.

Uppruni járns: upp síðuna

Fæðutegundir sem gefa járn:

 • Fæða úr dýraríkinu:
  • Innmatur, t.d lifur, hjörtu, lifrapylsa,
  • kjöt (meira járn í dökku kjöti en ljósu),
 • Fæða úr jurtaríkinu:
  • Þurrkaðir ávextir,
  • baunir,
  • hnetur,
  • dökkgrænt blaðgrænmeti.

Járn nýtist best úr kjöti, innmat og fiski (um 25%). Almennt nýtist um 10 % af járni úr fæðunni. Nýting fer eftir samsetningu máltíðanna.

 • C-vítamín eykur nýtingu á járni úr fæðutegundum öðrum en kjöti, innmat og fiski. Járn úr þessum fæðutegundum nýtist mjög vel og hefur einnig áhrif á það að járn úr öðrum fæðutegundum í máltíðinni nýtist betur en ella. Mikilvægt er að borða í allar aðalmáltíðir dagsins C vítamínríkan ávöxt, kartöflur eða grænmeti.
 • Mjög mikil trefjaneysla getur valdið því að járn berist burt með trefjaefnum og nýtist illa úr fæðunni, en þar sem mun meira járn er í trefjaríkum fæðutegundum en fínum og slík fæða verðmætari að flestu leyti er Þetta ekki talið skipta verulegu máli.
 • Tannin sem finnst í tei hindrar frásog á járni.
 • Í mjólk er lítið járn og auk þess dregur mjólk úr nýtingu á járni úr öðrum fæðutegundum í máltiðinni.

RDS, ráðlagður dagskammtur: upp síðuna

 • Unglingar 10 mg,
 • konur 18 mg,
 • karlar10 mg.

  Ráðlagður dagskammtur er mun hærri en raunveruleg þörf, þar sem járn í fæðu nýtist mjög illa í líkamanum.

Skortur á járni: upp síðuna

Járnskortur kemur fram sem blóðleysi. Blóðleysi getur m.a. stafað af járnsnauðu fæði, lélegu frásogi járns o.fl. Blóðleysi er einn algengasti hörgulsjúkdómurinn sem þekkist. Konum er hættara við blóðleysi en körlum vegna tíðablæðinga.

Einkenni járnskorts er þreyta, máttleysi, svimi, óeðlilegur hjartsláttur o.fl.
Talið er að 10 - 20% kvenna og um 2 % karla í iðnvæddum löndum þjáist af blóðleysi. Íþróunarlöndum er blóðleysi mun algengara vandamál.

Tenglar: upp síðuna


Fjölbrautaskólinn við Ármúla / desember 2001
Höfundar efnis: Ragnheiður Ásta Guðnadóttir
Prófarkalestur: Guðrún I. Stefánsdóttir

Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir og Jón Örn Arnarson, yngri