Stærð: Dæmigerð plöntufruma er um 20
míkrómetrar í þvermál eða 1/50 úr
mm. Þannig geta 50 plöntufrumur rúmast hlið við
hlið innan 1 mm. Plöntufruma er því um 20 sinnum
stærri en meðal gerilfruma
Bygging: Plöntufrumur eru heilkjörnungar, það
er erfðaefni þeirra er varið í kjarna frumunnar. Fyrir
utan kjarnann, þá er fruman gerð úr umfrymi þar
sem öll frumulíffæri hennar eru staðsett og utan
um frumuna er frumuhimnan. Það sem einkennir byggingu plöntufrumunnar
eru eftirtalin atriði:
-
Utan um frumuhimnu plöntufruma er veggur úr sellulósa
(beðmi). Frumuveggurinn gefur plöntufrumunni fasta lögun.
-
Í miðri plöntufrumunni er stór safabóla sem
er fyllt vökva eða frumusafa. Vegna þessarar stóru
safabólu þrýstist umfrymið að jöðrum
frumunnar og kjarninn er því oftast út við frumuhimnuna.
Til eru plöntufrumur sem hafa kjarnann í miðri safabólunni
og er hann þá skorðaður með grönnum umfrymisþráðum.
-
Í umfrymi plöntufruma eru mjölvakorn. Þau geyma
mjölvann sem er næringarforði plöntufrumunnar.
-
Margar plöntufrumur hafa grænukorn. Grænukornin innihalda
litarefni sem nefnist laufgræna (chlorophyll). Laufgrænan drekkur
í sig ljós og virkjar orku þess til að nýmynda
lífrænt efni úr koltvíoxíði og vatni.
Ferlið nefnist ljóstillífun. Úrgangsefni ljóstillífunar
er súrefni. Grænukorn finnast aðeins í grænum
hlutum plantna sem birta fellur, þau vantar í rætur
og önnur neðanjarðarlíffæri.
NÁT 103/Sigurlaug Kristmannsdóttir. Síðast
uppfært í mars 2001 |