[Frumulíffræði]

8. Dæmigerð veira.

Stærð: Veirur eru svo smáir að ógerlegt er að sjá þær með berum augum, þær sjást aðeins í rafeindasmásjám. Þvermál þeirra er oftast aðeins um 100 nanómetrar eða 1/10 000 úr mm. Þannig geta 10 000 veirur rúmast hlið við hlið innan 1 mm.

Bygging: Veirur eru ekki gerðar úr frumum og því er vart hægt að telja þær sem lífverur. Bygging þeirra er afar einföld. Þær hafa vegg eða hjúp úr próteini og innan hans er snúinn kjarnsýruþráður. Kjarnsýran í veirum er ýmist DNA eða RNA.

Lifnaðarhættir: Veirur eru háðar lifandi frumum varðandi æxlun. Þess vegna eru veirur sníklar og þær drepa hýsla sína á endanum. Veirur eru hýsilsérhæfðar sem merkir að hver veirutegund ræðst aðeins á tilteknar frumur. Kvefveira ræðst t.d. aðeins á frumur í nefgöngum og hálsi. Mænusóttarveiran leggst á frumur í mænu og getur leitt til lömunar. Allar þekktar veirur valda einhverjum skaða á hýsli sínum.

Fjölgun: Veirur fjölga sér aðeins innan lifandi fruma. Fjölgun þeirra fer þannig fram að þær festa sig við lifandi frumu og kjarnsýruþráður veirunnar fer inn í frumuna. Kjarnsýruþráður veirunnar margfaldast síðan inn í frumunni og til verða fjölmargir þræðir. Um hvern þráð myndast próteinhjúpur og nýjar veirur hafa orðið til. Að lokum springur fruman og veirurnar losna út úr henni. Skaðsemi veira má rekja til þessara lifnaðarhátta þeirra.


NÁT 103/Sigurlaug Kristmannsdóttir. Síðast uppfært í mars 2001