Hvirfilbein. Hvirfilbeinin, sem teljast til kúpubeina, ossa cranii, eru tvö og skiptast í hægra og vinstra bein. Þau liggja fyrir aftan ennisbeinið, os frontale og ná að hnakkabeini, os occipitale. Hvirfilbeinin móta því efsta hluta höfuðkúpunnar eða kollinn ásamt hliðum hennar að gagnaugabeinum, os temporale en á þeim sitja eyrun. Hvirfilbeinin mætast í höfuðsaum sem kallast þykktarsaumur, sutura sagitalis, en höfuðsaumar eru óhreyfanleg bandvefsbeinamót sem beingerast á 20.- 30. aldursári. Innri hluti hvirfilbeinanna sem snýr að heilanum nefnist innflötur, facies interna en flöturinn sem snýr út nefnist útflötur, facies externa. Hvirfilbeinin byrja að myndast í fóstri á áttundu viku meðgöngu. Það eru beinmyndandi frumur sem nýmynda beinin. Beinmyndunin hefst í miðju beinanna en þar myndast nokkurs konar hringur sem svo bætist við í sífellu uns komið er í barma beinanna. Í kringum fjórtándu viku fósturskeiðs er myndun hvirfilbeinanna í fullum gangi og heldur þannig áfram út fósturskeiðið. Höfuðsaumarnir sem liggja á brúnum beinanna eru þó enn mjög víðir við fæðingu, sérstaklega við gagnaugabeinið, enda gróa þeir ekki fyrr en manneskjan er á þrítugsaldri. |
Upp síðuna. / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999 / til baka