LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999.
Brjóstkassinn.
Verkefni í líffæra- og lífeðlisfræði mannsins - LOL 103.


Höfundur:
Íris Björg Símonardóttir.

Brjóstkassinn:
Efnisyfirlit:
Brjóstkassinn.
Rif.
Rifbeinsbrot.
Bringubein.
Brjóstliðir.
Stutt, flöt og óregluleg bein.
Sjúkdómar.
Heimildaskrá.

Brjóstkassinn, thorax er samansettur úr 37 beinum; 24 rifbeinum, costae, 1 bringubeini, os sternum og 12 brjóstliðum, vertebrae thoracicae.
Öll bein brjóstkassans eru ýmist stutt, flöt eða óregluleg. Brjóstkassinn verndar brjóstholslíffærin gegn hnjaski og tekur þátt í önduninni.

Upp síðuna


Rif, costae eru níðsterk bein sem mynda eins konar grind í kringum brjóstholslíffærin og vernda þau þannig. Rifin taka einnig þátt í myndun blóðkorna í blóðmergnum. Rifin eru 24 talsins eða 12 pör, og eru löng og sveigð. Annar endi flestra rifja tengist bringubeini með brjóskbeinamótum úr stífu brjóski sem nefnast geislungar rifja, cartilago costalis. Hinn endinn myndar beinamót við liðbol, corpus tveggja hryggjarliða ásamt þvertindi á neðri hryggjarliðnum.

Rifjunum er skipt í 3 flokka, talið ofan frá og niður:

  • Heilrif (oft kölluð sönn rif): Þau eru 1.-7. rifjapar og tengjast öll bringubeini með geislungum rifja.
  • Skammrif (oft kölluðu fölsk rif): Þau eru 8. - 10. rifjapar og geislungar þeirra tengjast geislungi 7. rifjapars.
  • Frjáls rif: Þau eru 11. - 12. rifjapar og eru án geislunga. Þau tengjast aðeins hryggnum en hinir endar þeirra liggja í kviðvegg.

Undir hverju rifi liggja æðar og taugar í svokallaðri millirifjarennu.

Bil er á milli allra rifja og kallast það bil millirifjabil. Þar eru millirifjavöðvar sem festa sig á milli rifjanna og eru öndunarvöðvar. Í millirifjavöðvum getur komið upp kvilli sem kallast millirifjagigt og lýsir hann sér sem krampakenndur verkur á milli rifbeina þegar andað er (þegar brjóstkassinn þenst út eða dregst saman).

Upp síðuna


Rifbeinsbrot: Ef rifbein brotnar af einhverri ástæðu, ná millirifjavöðvarnir að halda brotinu í fullgóðum skorðum þar til að beinið hefur náð því að gróa.

Ef frjáls rif brotna geta þau stungist inn í kviðarholið og t.d. sprengt miltað eða marið nýru. Ef miltað springur er nauðsynlegt að fjarlægja það með skurðaðgerð.

Upp síðuna


Bringubein, os sternum er miðlægt, medialis á milli rifjapara og fyrir ofan hjarta. Framendar flestra rifjanna festast á bringubeinið með geislungum og er bringubein því augljóslega stór þáttur í styrk brjóstkassans.

Aðalhlutverk bringubeins er að styrkja brjóstkassann, vernda hjartað og að framleiða blóðkorn með blóðmergi þess. Einnig er bringubeinið notað við hjartahnoð í skyndihjálp.

Bringubeini er skipt í 3 hluta:

  • Bringubeinshjalt, manubrium sterni.
  • Bringubeinsbol, corpus sterni.
  • Flagbrjósk, processus xiphoideus.

Upp síðuna


Brjóstliðir, vertebrae thoracicae: Hryggnum er skipt niður í 5 hluta en aðeins einn af þessum fimm hlutum hryggjarins myndar brjóstkassann, og það eru brjóstliðirnir (12 alls).

Hvert rif myndar beinamót við liðbol tveggja hryggjarliða og við brjóskþófann á milli þeirra, ásamt þvertindi á neðri hryggjarliðinum.

Brjóstliðirnir eru óregluleg bein. Þeir eru hluti af brjóstkassanum því annar endi rifja tengist þeim. Dæmigerðum brjóstlið er skipt í liðbol, corpus, sem ber mestan þungann, og boga, arcus.

Boga er svo skipt í:

  • Mænugat, foramen veretebrale, þar sem mænan liggur í gegn.
  • Hryggtind, processus spinosus, sem er vöðvafesta fyrir bakvöðva.
  • Þvertinda, processus transversi, á þeim eru grunnar liðskálar fyrir aðra hryggjarliði og fyrir rifin.
  • Efri og neðri liðtinda, processus asticularius superior og inferior, þeir eru staðsettir hvoru megin við mænugatið og snerta efri liðtinda eins hryggjarliðs og neðri liðtinda þess fyrir ofan (milliliðaliðir).

Á milli hverra tveggja hryggjarliða er liðþófi, discus intervertebralis og virkar hann sem höggdeyfir eða stuðpúði á þá.

Upp síðuna


Stutt, flöt og óregluleg bein: Þau bein sem eru í brjóstkassanum eru ýmist stutt, flöt eða óregluleg þ.e. þau hafa engar kastlínur, ekkert merghol og ekkert liðbrjósk eins og löng bein hafa, en stutt, flöt og óregluleg bein myndast af frauðbeini, þéttu beini og beinhimnu.
Rifbein:
Þverskurður af rifbeini.

Upp síðuna


Sjúkdómar í beinum brjóstkassa: Í frauðbeini bringubeins og rifbeina (einnig í herðablöðum og mjaðmagrind) er virkur blóðmyndandi mergur sem myndar öll blóðkorna; rauðra, hvítra og blóðflagna. Hér verða nefndir fjórir sjúkdómar sem myndast geta í beinmerg:
  1. Ef framleiðsla rauðra blóðkorna er of mikil geta sjúkdómar myndast eins og t.d. ofgnótt rauðra blóðkorna. Meginafbrigði þess sjúkdóms eru:
    1. Illkynja (krabbamein); myndun rauðra blóðkorna verður stjórnlaus.
    2. Afleidd ofgnótt rauðra blóðkorna; eins og t.d. svæsin langvinn berkjubólga. Blóðkorn blóðsins fá ekki nægilegt súrefni til að flytja um líkamann og afleiðing þess er að beinmergurinn myndar mun fleiri blóðkorn en venjulega.
    3. Gervi- ofgnótt rauðra blóðkorna; Mikil þéttni rauðra blóðkorna verður afleiðing skorts á blóðvökva og orsakarinnar því ekki að leita í beinmergnum.
  2. Mergæxli: Plasmafrumur í mergnum leggja undir sig meira en helming mergsins vegna stjórnlausrar frumuskiptingar. Afleiðingar þess eru þær að:
    1. Myndun annara blóðkorna í mergnum truflast.
    2. Ofgnótt plasmafrumanna veldur þrýstingshækkun í mergnum, sem svo veikir umlykjandi bein.
    3. Mótefnamyndun heilbrigðu plasmafrumnanna, sem eftir eru, truflast þannig að ónæmiskerfi líkamans veikist.
  3. Skert myndun blóðkorna: Mergurinn nær ekki að starfa á venjulegan hátt vegna mikils samdráttar á allri myndun blóðkorna í beinmergnum. Þessi samdráttur stafar yfirleitt af lyfjum, geislunum eða eiturefnis sem neytt hefur verið.
  4. Kyrningahrap: Myndun kyrninga (hvítra blóðkorna) minnkar eða stöðvast, þannig að magn þeirra í blóði minnkar verulega. Við þetta dregur úr viðnámi líkamans gegn sýkingum.
Brjóstkassi getur afmyndast við suma sjúkdóma eins og t.d. astma: "Endurtekin alvarleg köst í börnum geta leitt til vaxtarseinkunar og einnig útstæðs brjóstkassa (fuglabrjóst) sem eykur hættuna á lungnaþembu seinna." (Heimilislæknirinn, 2.bindi, bls.433)

Upp síðuna


Heimildaskrá:

Líffæra-og lífeðlisfræði - Fyrra bindi.1995. IÐNÚ, Reykjavík. Regína Stefnisdóttir (þýddi og staðfærði)

Heimilislæknirinn - 2. bindi. 1987. Bókaútgáfan Iðunn, Reykjavík

Upp síðuna / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999.


Beinavefurinn. Brjóstkassinn.
Höfundur: Íris Björg Símonardóttir.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 30. nóvember 1999.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/bein2/bein2.htm
Frau bein Þéttbein Beinhimna