LOL 203, verkefni nemenda vorönn 2000. / Tennurnar hans Jóa. / Til baka á fyrri síðu um hlutverk tanna í meltingu.

Hlutverk tanna í meltingunni, framhald.

    En hvað er það sem gerist þegar fæðan er tuggin? Við skulum ganga út frá því að hnífapör séu ekki notuð til að skera fæðuna í hluta af viðráðanlegri stærð. Sé sú raunin þá sjá framtennurnar, dentes incisivi, um það að klippa fæðuna niður í hæfilega búta sem tungan veltir svo aftur í munninn. Þær eru uppbyggðar sem e.k. fleygar sem kljúfa sér leið í gegnum allt það sem að kjafti kemur.

Augntennurnar, dentes canini, hafa í fyrndinni gegnt því hlutverki að halda bráðinni fastri og klippa á grunnlægar æðar. En eftir því sem hendurnar þróðuðust meira og urðu hæfari til að halda bráðinni í heljargreipum, að ekki sé nú talað um uppfinningu hnífsins, hafa augntennurnar misst upprunalegt hlutverk sitt og létta nú einungis undir með framtönnunum við sundurhutun fæðunnar. Við þessa þróun hafa þær rýrnað sem gefur möguleika á fjölbreyttari tyggingarhreyfingum, sjá mynd á fyrri síðu.

Fyrir aftan augntennurnar taka framjaxlarnir, dentes praemolares, við. Þar sem hingað til hefur verið fylgst með tyggingunni frá sjónarhóli rándýrs er tilvalið að halda því áfram. Framjaxlar í manninum eru nauðalíkir jöxlum í hundi. Engan skyldi það undra, því hlutverk þeirra er hið sama. Það er að saxa niður kjöt sem framtennurnar hafa klippt til. því að þegar framtennur (og augntennur) hafa sneitt kjötmetið niður í mátulega bita, eru þeir samt of stórir til að viðunandi sé að þeir haldi af stað niður í maga. Það sem gerir framjaxlana svo hæfa til þessa starfs er það að þeir eru fleyglaga sem hjálpar þeim að sneiða í gegnum fæðuna, en ennfremur eru þeir tvítypptir þannig að þegar bitið er saman, þá er sú fæða sem lendir á milli tindanna, söxuð eins og í Moulinex-vél.

En þar með er ekki öll sagan sögð. Maðurinn er alæta og þess vegna hefur hann jaxla fyrir aftan framjaxlana. Jaxlarnir, dentes molares, sjá um kornmeti hnetur o.þ.h. nokkuð sem framjaxlarnir duga ekki til að bryðja. Jaxlarnir í manninum eru líkir því sem sést í hestum og öðrum grasbítum. Vegna seigju sellulósans, sem myndar frumuvegginn utan um plöntufrumurnar, þarf sérstaklega öflugar og sterkbyggðar tennur til að brjóta hann sundur svo hægt sé að komast að mjölvanum innan frumanna. Jaxlarnir hafa stóran snertiflöt, 5 tinda að jafnaði, og eru þétt upp við m.masseter sem sér um hreyfingar mandibulae við tygginguna. En vegna nálægðarinnar við hann nýtist orkan sem frá honum kemur mun betur í jöxlunum en við framtennurnar.

Meirihluti manna á samt í erfiðleikum með að taka endajaxlinn, og þurfa því á endajaxlatöku að halda. En vegna þess hve seint endajaxlinn kemur upp (16-17 ára aldur) er hann einnig nefndur vísdómstönn, dens serotinus.

Fyrri síða.


Meltingavefurinn. Tennurnar hans Jóa.
Höfundar: Árni Þór Hilmarsson, Ársæll Jónsson,
Eyjólfur Þorkelsson og Stefán Magni Árnason.
Vefari: Sigurlaug Kristmannsdóttir sigurlaug@arnarson.is
Jarðfræði-, landafræði- og líffræðideild Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi
Síðast uppfært 25. apríl 2000.
URL: http://sigurlaug.arnarson.is/liffraedi/melting2/tygging2.htm