Beinþynning, 1. hluti.
Flestir vita að meginuppistaðan í beinum er kalk, CaCO3. Færri vita hins vegar að kalkið í beinunum er ekki fast í þeim. Beinin eru nefnilega kalkforðabúr fyrir allan líkamann og vanti hann kalk gengur á kalkið í beinunum. Þá leysa osteoclastae, beinbrjótar, upp hinn frauðkennda beinvef eða substantia spongiosa, en þegar líkaminn fær meira kalk en hann nauðsynlega þarf, byggist substantia spongiosa upp að nýju. Undir venjulegum kringumstæðum lýtur þetta ferli lögmálum jafnvægishneigðar, homeostasis, því osteoclastae þurfa hvort eð er að brjóta niður gamlan beinvef og osteoblastae, beinmyndunarfrumur, að nýmynda hann. En þegar röskun verður á þessu viðkvæma jafnvægi er talað um beinþynningu, osteoporosis. Substancia spongiosa gefur beinunum ákveðinn sveigjanleika svo þegar það minnkar verða beinin stökkari og brothættari. Beinbrot af völdum beinþynningar eru árlega um 1500 hér á Íslandi. En hverjir eru í mesta áhættuhópnum varðandi beinþynningu? Svarið er: Allt eldra fólk því beinin byrja að hrörna strax við 35 ára aldur, og tvöfalt hraðar hjá konum en körlum. Hraði beintaps eykst eftir tíðahvörf en fellur aftur í sama far eftir u.þ.b. fimm ár. Hjá körlum eykst hraði beinhrörnunar ekki fyrr en við áttrætt og þar að auki hafa þeir meiri beinmassa og því er af meiru að taka. Ástæða þess að hrörnunarhraði eykst við tíðahvörf kvenna er sú að þá dregur verulega úr myndun á estrógeni sem hamlar beintapi. En hreyfing, eða öllu heldur hreyfingarleysi, hefur gríðarlega þýðingu varðandi beinþynningu. Við aukna hreyfingu eykst álag á bein sem bregðast við með því að þétta massann. Sé massinn orðinn mjög þéttur líður lengri tími þar til áhrifa beinþynningar fer að gæta að ráði. Og jafnvel þó að beinþynningin sé komin á frekar hátt stig hamlar hreyfing frekari beinþynningu. En ekki er alveg sama hvernig hreyfingu er um að ræða, hún þarf að vera þungaberandi (t.d. hlaup, ganga o.fl.), regluleg, stigvaxandi og helst sem sjálfsagður hlutur í lífi fólks. Sjá framhaldið: Beinþynning, 2. hluti. |
Upp síðuna. / Til baka / Heimildaskrá / LOL 103, verkefni nemenda haustönn 1999